Ný stjórn KSÍ mun aðeins sitja í fjóra mánuði

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Ný stjórn KSÍ mun aðeins sitja í fjóra mánuði

14.09.2021 - 09:44
Frestur til að tilkynna um framboð í stjórn KSÍ sem kjörin verður á aukaþingi sambandsins 2. október er út næstu viku, eða til og með 25. september. Nokkur fjöldi fólks liggur nú undir feldi hvort það hyggist gefa kost á sér í stjórnina.

„Sá sem býður sig fram til formanns eða stjórnar skal hafa skrifleg meðmæli aðildarfélaga sem fara samanlagt með a.m.k. 12 atkvæði á knattspyrnuþingi,“ segir meðal annars í auglýsingu KSÍ um aukaþingið til aðildarfélaga, sem birt var 3. september.

Samkvæmt lögum KSÍ fer ársþing fram í febrúar hvert ár og er þá hluti stjórnar kjörinn til tveggja ára. Þar sem öll stjórnin sagði af sér á dögunum verður hins vegar kosið um embætti formanns, átta embætti stjórnarfólks og svo þrjú embætti varamanna í stjórnina á aukaþinginu. Allt verður þetta fólk þó aðeins kjörið til bráðabirgða, eða fram að næsta ársþingi KSÍ sem verður samkvæmt lögum sambandsins í febrúar á næsta ári.

Ný stjórn KSÍ sem kjörin verður 2. október mun því aðeins sitja til bráðabirgða í um fjóra mánuði.