Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Maður á aldrei að gúggla þegar maður er veikur“

14.09.2021 - 11:04
Barnshafandi kona sem veiktist af COVID-19 á meðgöngunni, segist hafa verið hrædd um áhrif þess á ófætt barnið. Það hafi aukið á óttann að leita upplýsinga á netinu. Hún er þakklát fyrir eftirlit covid-göngudeildar.

Anna Claessen á von á sínu fyrsta barni í desember. Eftir að hún fór í fyrri bólusetninguna gegn covid veiktist hún af sjúkdómnum. „Og ég er bara ógeðslega veik,“ segir hún. Hún hélt í fyrstu að þetta væru viðbrögð við bólusetningunni. „Og af því að ég er ólétt þá mátti ég ekki taka nein verkjalyf, var bara að taka paradabs, og maður getur ekki sofið fyrir verkjum.“

Hún fór síðan í sýnatöku og reyndist vera með sjúkdóminn. „Ég var bara hrædd. Af því að það hefur ekki verið talað mikið um óléttu og meðgöngu og covid. Og fer síðan að lesa mér til,“ segir Anna. Það hafi síst slegið á óttann. „Maður á aldrei að gúggla þegar maður er veikur,“ segir hún. „En síðan er svo fallegt, á göngudeildinni, af því að ég er ólétt þá hringir ljósmóðir liggur við daglega. Sú þjónusta, það þótti mér rosalega vænt um,“ segir Anna.

Hún er orðin frísk í dag en segir sárt að barnsfaðir hennar gat ekki fylgt henni í fyrstu mæðraskoðun vegna sóttvarnaráðstafana. „Ég fór í fyrstu skoðunina til að staðfesta fóstrið og kærastinn minn mátti ekki koma með, og það er svo leiðinlegt af því að hann missti af því að finna hjartsláttinn í fyrsta skiptið,“ segir Anna. „Og þetta er ákveðið augnablik sem maður fær ekki til baka.“ 

Rætt var við Önnu Claessen í Morgunútvarpinu á Rás tvö.

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV