„Við höfum beðið, vonað og lagt hart að okkur. Og nú getum við loks sagt: Okkur tókst það,“ sagði Jonas Gahr Støre, leiðtogi Verkamannaflokksins, sigurreifur. Það var glatt á hjalla á kosningavöku Verkamannaflokksins í gærkvöld þegar niðurstaða kosninganna varð ljós. Þær voru um margt áhugaverðar.
Metfjöldi kvenna náði kjöri
Aldrei hafa fleiri konur náð kjöri, 79 talsins en 169 þingmenn sitja á Stórþinginu. Samsetning þeirra breytist nú umtalsvert. Allir flokkarnir í vinstriblokkinni bæta við sig, nema Verkamannaflokkurinn sem þó er langstærsti flokkurinn með 48 þingmenn. Hægriflokkurinn, flokkur Ernu Solberg, fráfarandi forsætisráðherra, tapar níu þingmönnum. Samtals bætir vinstriblokkin við sig 19 þingmönnum og hægriblokkin tapar 20.