Hollendingar mæta með nýjan þjálfara til Íslands

epa09133163 (L-R) - Jill Roord of Netherlands celebrates with teammates Vivianne Miedema, Sherida Spitse and Lieke Martens after scoring the 1-0 goal during the Women's International friendly soccer match between Netherlands and Australia in Nijmegen, The Netherlands, 13 April 2021.  EPA-EFE/PIETER STAM DE JONGE
 Mynd: EPA

Hollendingar mæta með nýjan þjálfara til Íslands

14.09.2021 - 12:06
Hollenska kvennalandsliðið í fótbolta sem varð Evrópumeistari 2017 og vann silfrið á HM 2019 kemur á Laugardalsvöll næsta þriðjudag og mætir þá Íslandi í undankeppni HM 2023. Hollendingar eru nýbúnir að ganga í gegnum þjálfaraskipti.

Eftir EM gullið og HM silfrið varð Sarina Wiegman sem stýrði hollenska landsliðinu á þeim mótum að eftirsóttum bita. Enska knattspyrnusambandið réði hana í stað Phil Neville sem landsliðaþjálfara Englands, en þó samdi Wiegman þannig að hún kláraði Ólympíuleikana í Tókýó með Hollendingum í sumar. Þar féllu Hollendingar út í vítaspyrnukeppni í 8-liða úrslitum fyrir Bandaríkjunum.

Holland tilkynnti 20. maí að eftirmaður Wiegman yrði Englendingur Mark parsons, sem jafnframt þjálfar bandaríska félagsliðið Portland Thorns. Fyrsti leikur Hollands undir stjórn Parsons verður heimaleikur við Tékkland í undankeppni HM á föstudag. Síðan heldur hann með hollenska liðið til Íslands þar sem Ísland og Holland mætast á Laugardalsvelli á þriðjudag, 21. september.

Afar sterkir leikmenn í hollenska liðinu

Parsons mætir með afar sterkan leikmannahóp til Íslands. Þar má finna leikmenn á borð við markamaskínuna Vivianne Miedama hjá Arsenal. Hún hefur skorað 83 mörk í 100 landsleikjum fyrir Holland og er aðeins 25 ára. Þá má nefna fleiri stjörnur á borð við Lieke Martens hjá Barcelona, Shanice van de Sanden hjá Wolfsburg, Jackie Groenen hjá Manchester United, Danielle van de Donk hjá Lyon, svo aðeins fáeinar stjörnur séu nefndar. Leikmannahóp Hollands má skoða hér.

Leikur Íslands og Hollands næsta þriðjudag verður sýndur beint á RÚV og hefst klukkan 18:45 en HM stofan klukkan 18:10. Auk Íslands og Hollands í C-riðli undankeppninnar eru Tékkar, Hvítrússar og Kýpverjar. Efsta lið riðilsins vinnur sér sæti á HM 2023 sem verður í Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Næstefsta liðið kemst í flókið umspil um þrjú laus aukasæti inn á HM.