Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hátt álverð jákvætt fyrir álver hér á landi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Heimsmarkaðsverð á áli rýkur upp og hefur ekki verið hærra í 13 ár. Hækkunin hefur góð áhrif á rekstur álvera hér á landi. Í gær fór verð á tonni yfir þrjú þúsund dollara. Hækkunin nemur um það bil fjörutíu prósentum það sem af er ári.

Valdarán í Gíneu á dögunum veldur meðal annars verðhækkuninni. Við það hefur framboð á báxíti dregist umtalsvert saman, en ál er unnið úr því. 
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls segir að hækkun á heimsmarkaðsverði megi einnig rekja til þess að Kínverjar hafi náð efri mörkum í álframleiðslu sinni. Kol eru notuð þar til framleiðslunnar að stórum hluta og þar er framleiddur rúmur helmingur af öllu áli í heiminum.

Nú er svo komið að þeir flytja inn meira af áli en þeir flytja út. Hann segir hækkunina koma sér vel fyrir álfyrirtæki hér á landi. Þau hafa verið rekin með tapi undanfarin ár vegna lágs heimsmarkaðsverðs.

„Þetta breytir heilmiklu. Reksturinn hefur verið þungur undanfarin ár og þetta er því góð innspýting og það eru bjartar horfur á álmörkuðum.“

Búist þið við að þetta þýði að álverin fari að skila hagnaði? 

Já það má reikna fastlega með því já.“ segir Pétur.

Í fyrra var til umræðu að loka álverinu í Straumsvík og fóru forsvarsmenn Rio Tinto Alcan þess á leit við Landsvirkjun að lækka raforkuverð til fyrirtækisins. Bjarni Már Gylfason er upplýsingafulltrúi fyrirtækisins. Hann segir fyrirtækið standa styrkari fótum nú en þá. 

„Það sem breyttist í samningnum við Landsvirkjun er að það kemur inn tenging við álverð. Það þýðir að raforkuverðið er hátt núna og það kemur sér vel fyrir Landsvirkjun og Ísland. En það gerir okkar fyrirtæki kleift að kljást við sveiflur í álverði sem við verðum að reikna með að verði áfram á næstu árum, en ástandið núna er mjög gott og ánægjulegt að álverð sé svona hátt eins og raun ber vitni,“ segir Bjarni Már.