Fá 640 milljóna króna fjárstyrk vegna aurskriðanna

14.09.2021 - 18:57
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita níu stofnunum 640 milljón króna fjárstyrk til að mæta ófyrirséðum útgjöldum vegna viðbragða og framkvæmda í kjölfar aurskriðanna á Seyðisfirði í desember á síðasta ári. Stærstur hluti fer í Ofanflóðasjóð, til Veðurstofunnar og Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra.

Þá hefur verið samþykkt að styrkja sveitarfélagið Múlaþing um 76 milljónir króna vegna óvæntra útgjalda sveitarfélagsins. Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu kemur fram að sveitarfélagið ráðstafi styrkjunum eins og það metur best í endurreisn samfélagsins.

Þrettán hús eyðilögðust í skriðunum og Náttúruhamfaratrygging fékk níutíu tilkynningar um tjón. Starfshópur ráðuneyta vinnur með Múlaþingi en í undirbúningi er áætlun um færslu menningarverðmætra húsa af hættusvæðum á Seyðisfirði.