Erfitt að staðsetja sig á pólitíska litrófinu

14.09.2021 - 07:25
Mynd: Landbúnaðarháskóli Íslands / Landbúnaðarháskóli Íslands
Loftslags-, umhverfis-, og húsnæðismál eru ofarlega í huga ungra kjósenda fyrir alþingiskosningarnar 25. september segja þau Isabel Alejandra Diaz, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands og Maggi Snorrason varaforseti Sambands íslenskra framhaldsskólanema.

Ungt fólk hefur áhuga á stjórnmálum

Kosningabaráttan er komin vel í gang, umræðuþættir í útvarpi og sjónvarpi, greinaskrif í blöð og flokkarnir láta vel til sín taka á samfélagsmiðlum. En hvað brennur helst á ungu fólki í aðdraganda kosninga, hvaða málaflokkar eru mikilvægastir í þess huga? Isabel og Maggi segja að ungt fólk hafi áhuga á stjórnmálum, en ásýnd þeirra mætti vera meira aðlaðandi. Ungt fólk nýti sér aðrar leiðir en eldri kynslóðir til að koma skoðunum  sinni á framfæri. 

Nóg um að velja

Maggi segir að fólk um tvítugt eigi svolítið erfitt með að staðsetja sig á litrófi stjórnmálanna. Ekki vanti framboðið af flokkum og framboðum og það sé vinsæll samkvæmisleikur að taka þátt í prófum og könnunum eins og Kosningavitanum til að átta sig á sinni stöðu. Isabel segir að ungt fólk hafi svolítið gleymst í Covid faraldrinum. Það hafi því gripið til sinna ráða til að vekja athygli á málum sem þeim eru hjartfólgin eins og loftslagsverkföll ungra umhverfissinna sé dæmi um. Rætt er við þau Magga og Isabel í Speglinum.   

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV