Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Engin viðbrögð fengið frá stjórnvöldum

14.09.2021 - 20:54
Mynd: RÚV / RÚV
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, segist engin viðbrögð hafa fengið frá stjórnvöldum við skýrslu um fátækt og bága stöðu öryrkja sem birt var í gær. Hún segir að nú sé nóg komið.

„Í sannleika sagt held ég að það sé kominn tími á að maður auglýsi eftir hugrekki, hugrökku stjórnmálafólki sem hefur kjark og þor til að takast á við þetta og breyta þessum hlutum til batnaðar þannig að fólk búi ekki við þessa fátækt og niðurlægingu án þess að geta tekið þatt í samfélagi og búið börnunum sínum gott líf,“ segir Þuríður.

Ný rannsókn sem kynnt var í gær sýnir mjög bága fjárhagsstöðu öryrkja á Íslandi, sérstaklega einstæðinga og einstæðra foreldra. 80 prósent fatlaðs fólks á erfitt með að ná endum saman og jafnhátt hlutfall þeirra þarf að neita sér um heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. 60 prósent geta ekki mætt óvæntum útgjöldum og meira en einn af hverjum tíu þiggur mataraðstoð frá hjálparsamtökum.

Þuríður segist engin viðbrögð hafa fengið frá stjórnvöldum við skýrslunni. „Ég hef ekki fengið nein viðbrögð frá stjórnmálamönnum við þessari skýrslu. Ég held að þessi niðurstaða komi stjórnmálafólki ekki á óvart. Ég held að við séum það lengi búin að upplýsa stjórnvöld um stöðuna að það er ekki hægt að fela sig lengur á bakvið það að skella skuldinni á títt nefndar kerfisbreytingar til að lagfæra stöðu fatlaðs fólks því á meðan við erum að deila við stjórnvöld um kerfið og kerfisbreytingar þá bíður fatlað fólk og börn fatlaðs fólks og þau búa í fætækt og við jaðarsetningu,“ segir hún.

Rætt var við Þuríði og Kristínu Hebu Gísladóttur, framkvæmdastjóra Vörðu, í Kastljósi kvöldsins.