Dregið í undanúrslit bikarsins í kvöld

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Dregið í undanúrslit bikarsins í kvöld

14.09.2021 - 13:40
Í ljós kemur í kvöld hvaða lið mætast í undanúrslitum karla og kvenna í Coca Cola bikarnum í handbolta um næstu mánaðamót. Allir fjórir leikirnir í 8-liða úrslitum kvenna verða spilaðir í kvöld. 8-liða úrslit karla voru spiluð í gærkvöld.

Valur burstaði FH í stórleik gærkvöldsins í 8-liða úrslitum karla í bikarnum í leik sem endaði 34-24 fyrir Val. Valur er ríkjandi Íslandsmeistari og á nú 25% möguleika á því að bæta bikarmeistaratitlnum við sama árið. Hin liðin sem komin eru í undanúrslit bikarsins eru Stjarnan sem sigraði KA, 34-30 í gærkvöld. Fram sem vann sex marka útisigur á ÍR, 36-30, og Afturelding hafði betur á móti Fjölni, 35-30.

Dregið verður í kvöld hvaða lið mætast í undanúrslitum bikarsins. Undanúrslitaleikirnir verða spilaðir á Ásvöllum fimmtudagskvöldið 30. september og úrslitaleikurinn tveimur dögum síðar, laugardaginn 2. október. Það ræðst svo í kvöld hvaða lið það verða sem munu leika til undanúrslita í bikarkeppni kvenna.

Allir fjórir leikir 8-liða úrslitanna verða spilaðir í kvöld. Klukkan hálfátta taka Haukar á móti Fram. Víkingur fær FH í heimsókn á sama tíma. Klukkan átta eigast svo ÍBV og Valur við og verður sá leikur sýndur beint á ruv.is. Klukkan átta mætast líka Stjarnan og KA/Þór og verður sú viðureign sýnd beint á RÚV 2.