500 mega koma saman – 1.500 með hraðprófum

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Almennar fjöldatakmarkanir hækka úr 200 í 500 manns á miðnætti. Á viðburðum þar sem krafist er hraðprófs mega 1.500 manns koma saman. Þá lengist opnunartími skemmtistaða um klukkustund. Þeir munu nú mega taka við gestum til miðnættis, og síðustu gestir þurfa að vera farnir klukkan 01.

Þetta kom fram í máli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á tröppum Ráðherrabústaðarins nú fyrir stundu. Reglurnar taka gildi strax á miðnætti, sem er fyrr en gert hafði verið ráð fyrir.

Svandís nefndi sérstaklega að breytingar yrðu gerðar til að auðvelda menntaskólanemum að halda stóra viðburði og vísaði þar til menntaskólaballa, sem ekki hafa verið haldin í á annað ár.

Enn verður grímuskylda þar sem ekki er hægt að halda eins metra fjarlægð, svo sem í almenningssamgöngum, leigubílum, á hárgreiðslustofum og víðar.

Svandís segir samhljóm hafa verið innan ríkisstjórnarinnar. „Við ræðum málin alltaf og komum samhljóða hingað út.“ Einhverjir hafi viljað ganga lengra en aðrir skemur.

Til skoðunar að niðurgreiða hraðpróf hjá einkaaðilum

Þar sem hraðpróf eru nú forsenda aðgöngu á alla stærri viðburði hefur eftirspurn eftir þeim aukist nokkuð. Á höfuðborgarsvæðinu eru hraðpróf aðeins í boði hjá heilsugæslunni á einum stað, á Suðurlandsbraut og eru þau gjaldfrjáls.

Því til viðbótar hafa einkafyrirtæki tekið upp á því að bjóða hraðpróf og taka þau vitanlega gjald fyrir.

Svandís segir að skipuleggjendur stórra viðburða hafi nefnt að óheppilegt sé að gjaldfrjálsu hraðprófin séu aðeins í boði á einum stað. Til skoðunar sé að semja við einkaaðila, sem framkvæma hraðpróf, um að ríkið niðurgreiði prófin um sömu fjárhæð og það kostar ríkið að framkvæma próf á heilsugæslunni.

Ekki kom fram í máli Svandísar hversu há fjárhæð er.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV