Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Taka upp tvíbýli til þess að fjölga hjúkrunarrýmum

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Fjögur einmennings-hjúkrunarrými á Ísafirði og Bolungarvík verða nú tvíbýli. Til þessa ráðs er gripið svo stytta megi biðlista. Nítján eru nú á biðlista eftir að fá inni á hjúkrunarheimili á norðanverðum Vestfjörðum. Auka á um fjögur hjúkrunarrými með þessu. Þrjú á Eyri á Ísafirði og eitt á Bergi í Bolungarvík.

„Við gerum ráð fyrir því að þetta sé tímabundin ráðstöfun, ekki til þess að klára biðlistann heldur bara á meðan það eru margir einstaklingar í brýnni þörf fyrir úrræðið,“ segir Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. 

Innlitum í heimahjúkrun aukist um 120% 

Aukin fjármögnun fylgir ekki þessari fjölgun. Gylfi segir þetta vissulega afturför, en þörfin hafi verið brýn.

„Þeir íbúar sem eru fremstir á biðlistanum eru í mjög mikilli þörf fyrir að komast á hjúkrunarheimili og búnir að fullnýta önnur úrræði. Sérstaklega heimahjúkrun, heimaþjónustu, dagþjálfun og dagþjónustu. Þetta er eina lausnin sem við sjáum í stöðunni.“

Innlitum í heimahjúkrun við norðanvert Djúp hefur fjölgað um 120 prósent frá 2017. Á bráðadeild sjúkrahússins eru tvö föst rými fyrir hvíldarinnlagnir og hafa þau verið í stanslausri notkun. 

Ekki spurning um að þiggja plássið þegar það bauðst

Tvö tvíbýli hafa þegar verið tekin í notkun. Móðir Línu Bjargar Tryggvadóttur flutti inn í tvíbýli fyrir rúmum mánuði.

„Það var aldrei spurning, aldrei spurning að við tækjum þetta. Enda var þörfin þannig, enda má ekki gleyma því að á bakvið einstakling sem er lasinn er líka einstaklingur í umönnun.“ 

Faðir Línu hafði þá annast móður hennar heimavið þar til hún fékk pláss á Eyri.

„Hins vegar fer hún inn í tvíbýli þar sem hún býr með annarri manneskju sem við þekkjum ekki og móðir mín er með alzheimer. Þannig þarna er hún ekki með sitt eigið pláss og við getum í raun ekki farið inn með henni og setið í ró og næði og spjallað við hana. Þannig að ef að við viljum vera ein sem fjölskylda saman einhvers staðar þá þurfum við að taka hana út af heimilinu.“ 

Tíu ný hjúkrunarrými eru fyrirhuguð á Ísafirði. Ríkið og Ísafjarðarbær standa að þeirri uppbyggingu en hún hefur dregist þó nokkuð og ekki vitað hvenær framkvæmdir hefjast.