Sprenging í sölu á rafmagnshjólum

13.09.2021 - 12:50
Mynd: EBU / EBU
Það er óhætt að segja að sprenging hafi orðið í sölu á rafmagnshjólum síðustu árin. Ætla má að aukin notkun rafmagnshjóla dragi úr notkun einkabílsins.

Hjólin víða uppseld

Þrátt fyrir að enn sé einkabíllinn vinsælasti ferðamáti landsmanna þá hefur aukin umhverfisvitund orðið til þess að fleiri leggja bílnum og nota hjól. Þar munar mestu um tilkomu rafmagnshjólanna.

Aðalsteinn Helgason, verslunarstjóri hjá Skíðaþjónustunni á Akureyri segir þróunina hefa verið stigvaxandi síðustu ár og síðustu 2-3 ár hafi orðið sprenging í sölu á rafmagnshjólum.

Rafmagnshjól eru uppseld í mörgum verslunum og búið er að kaupa upp stóran hluta þeirra hjóla sem væntanleg eru til landsins á næsta ári. Faraldurinn hefur einnig haft þau áhrif að seinkanir hafa orðið í framleiðslu en einnig hefur áhugi fólks á útivist og hreyfingu aukist.

Hjól í stað aukabílsins

Aðalsteinn segir að fólk sé að minnka notkun einkabílsins og að nota rafmagnshjól í staðinn. „Já, við heyrum töluvert um það að fólk sé að leggja alla vega aukabílnum. Við finnum það á verkstæðinu að fólk er mjög óþolinmótt að fá hjólin ef þau bila eitthvað smá eða springa.“

Rafmagnshjólin krefjast minna líkamlegs atgervis en hin hefðbundnu reiðhjól þannig að sá hópur sem hjólar er orðinn fjölbreyttari.

Davíð Rúnar Gunnarsson er formaður rafmagnshjólaklúbbs Akureyrar sem er sístækkandi félagsskapur. Hann segir að þeir sem áður áttu erfitt með að hjóla séu farnir að nota rafmagnshjól. „Þeir sem ekki hafa getað hjólað eða hafa þurft smá aukahjálp geta notað rafmagnshjól. Aðrir eru að gera þetta af því að þetta er svo ofboðslega skemmtilegt.“

Davíð segir að veður og vindar stoppi ekki það að hjólað sé á rafmagnshjóli. „Ekki mikið, ég hjóla á veturna, flestir setja þetta á nagladekk. Þetta hjálpar þér eins og ég segi með mótornum í gegnum alla skafla nánast. Það er eiginlega bara skemmtilegra að nota þetta á veturna en á sumrin.“