Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Rauða blokkin með yfirgnæfandi meirihluta

13.09.2021 - 19:25
epa09466112 Norway's Labor leader Jonas Gahr Store is on his way to the Labor Party's election vigil in Oslo, Norway, 13 September 2021, during the 2021 parliamentary elections.  EPA-EFE/Javad Parsa  NORWAY OUT
 Mynd: EPA
Rauða blokkin, flokkar vinstra megin á ási norskra stjórnmála, er með yfirgnæfandi meirihluta samkvæmt fyrstu tölum úr þingkosningum í landinu sem birtar voru í norska ríkisútvarpinu í kvöld.

Þeir flokkar sem teljast til rauðu blokkarinnar fá samanlagt 101 þingsæti samkvæmt fyrstu tölum, samanborið við 67 þingsæti bláu blokkarinnar. Þar með er ríkisstjórn Ernu Solberg forsætisráðherra kolfallin og allt útlit fyrir að Jonas Gahr Støre, formaður Verkamannaflokksins, verði næsti forsætisráðherra.

Því hafði raunar verið spáð, en nokkurrar óvissu hefur gætt – og gætir enn – um hve mjótt yrði á munum í ljósi þess að margir flokkar mælast nálægt fjögurra prósenta þröskuldinum sem þarf til að ná þingsæti. 

Samkvæmt fyrstu tölum fær Verkamannaflokkurinn 25,5% atkvæða, sem gefur flokknum 48 þingsæti, einu minna en í síðustu kosningunum. Miðflokkurinn fær 14,1% fylgi sem gefur 25 þingsæti og Sósíalíski vinstriflokkurinn fær 7,6% fylgi, 13 þingmenn.

Getur myndað „draumastjórn sína“ miðað við tölur

Norska ríkisjónvarpið bendir á að ef þetta verður niðurstaðan, geti Støre myndað draumaríkisstjórn sína, stjórn Verkamannaflokks, Miðflokks og Sósíalíska vinstriflokksins. Samanlagt fá flokkarnir 86 þingsæti af 168 og þurfa því ekki að reiða sig á smáflokka á vinstri vængnum, verði þetta niðurstaðan.

Stjórnartíð Ernu Solberg er að öllum líkindum lokið. Hægriflokkur hennar tapar nokkru fylgi, fær 19,7% og 37 þingsæti og þjóðernisflokkurinn Framfaraflokkurinn, sem hefur stutt ríkisstjórn Solberg, fær 12,0% fylgi.

Miðað við fyrstu tölur fá sleppa bæði Græningjar og Rauðir naumlega yfir fjögurra prósenta markið, og fá því sjö og níu þingmenn.

Kristilegir og Venste – sem er þrátt fyrir nafnið hægriflokkur – eru hins vegar hinum megin línunnar og fá því engan jöfnunarþingmann. Hvor flokkur fær hins vegar þrjá kjördæmakjörna þingmenn.

Fylgjast má með talningu atkvæða á vef norska ríkisútvarpsins, NRK.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV