Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Matarskortur yfirvofandi í Afganistan

epaselect epa09332094 People who were displaced from restive Ghor district, wait for government assistance at a temporary shelter in neighboring Herat province in Qaderabad village, Herat, Afghanistan, 08 July 2021. The Afghan government on 08 July urged the international community to respond to the needs of five million people internally displaced by war and drought in the last two years amid a worsening situation due to a spike in violence. The displacement has intensified after the Taliban launched a major offensive coinciding with the withdrawal of United States and NATO began on 01 May.  EPA-EFE/JALIL REZAYEE
 Mynd: EPA-EFE
Sameinuðu þjóðirnar reyna að safna meira en sex hundruð milljónum dollara í neyðaraðstoð vegna ástandsins í Afganistan. Það fer stöðugt versnandi eftir að talibanar náðu þar völdum í síðasta mánuði. 

Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði þegar hann kynnti söfnunarátakið í dag að yfirvofandi hörmungar blöstu við afgönsku þjóðinni. Ástandið væri nú þegar orðið þannig að þriðji hver landsmaður vissi ekki hvenær hann fengi næst að borða.

Fátækt sagði hann að færi stöðugt vaxandi, hundruð þúsunda hefðu hrakist að heiman vegna átaka um yfirráð í landinu og við bættust alvarlegir þurrkar í annað sinn á fjórum árum. Guterres bætti við að þegar vetur gengi í garð í Afganistan í næsta mánuði gengju matarbirgðir fjölmargra til þurrðar.

Áætlað er að Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna fái þriðjung fjárins sem safnast til aðstoðar Afgönum til kaupa á matvælum. Reuters fréttastofan hefur eftir aðstoðarframkvæmdastjóra stofnunarinnar á svæðinu að sitt fólk grátbæni þjóðir heims til að reiða fram peninga til að koma í veg fyrir að matvæli í landinu gangi til þurrðar. Undir það tók Guterres í dag.

Áætlað er að 550 þúsund manns hafi verið á flótta í Afganistan vegna hernaðaraðgerða áður en talibanar náðu völdum um miðjan síðasta mánuð. Síðan þá hefur ástandið versnað til muna. Þúsundir hafa flúið til nágrannaríkja. 

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnu ráðherra, tilkynnti um 25 milljóna króna framlag til mannúðaraðstoðar í Afganistan á áheitaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Genf í dag. Framlagið rennur til samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) og bætist það við fjárframlög íslenskra stjórnvalda til Afganistans að undanförnu, segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Áður höfðu íslensk stjórnvöld lagt til 30 milljónir króna til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og aðrar 30 milljónir til Alþjóðaráðs Rauða krossins. 

Fréttin var uppfærð klukkan 17:52 eftir að nýjar upplýsingar bárust frá utanríkisráðuneytinu. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV