
Fjórðungur fyrirspurna vegna Reykjaness
Fjórðungur fyrirspurna sem Landsnet hefur fengið síðasta árið um orkuafhendingu til fyrirtækja tengist Reykjanesi. Suðurnesjalína tvö er talin forsenda þess að unnt sé að verða við óskum um meiri raforku til fyrirtækja suður með sjó.
Gagnaver, fyrirtæki í matvælaframleiðslu og fyrirtæki sem tengjast iðnaði í orkuskiptum eins og vetnisframleiðslu hafa óskað eftir raforku á Reykjanesi.
Skiptar skoðanir eru um hvort leggja eigi loftlínu eða jarðstreng um svæðið. Landsnet telur loftlínu betri kost en jarðstreng. Með tilliti til jarðhræringa og eldgoss á svæðinu sé strengur í jörð ekki góður kostur. Auk þess sé loftlína ódýrari og samkvæmt stefnu stjórnvalda.
Sveitarfélagið Vogar hafnaði umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu tvö og kærði Landsnet þá ákvörðun til úrskurðarnefnda umhverfis- og auðlindamála. Grindavík, Hafnafjörður og Reykjanesbær hafa hins vegar samþykkt umsóknina. Fulltrúar Landsnets telja synjun Voga á framkvæmdaleyfinu ólögmæta. Einnig séu mörg álitamál sem skera þurfi úr um.
Steinunn Þorsteinsdóttir er upplýsingafulltrúi Landsnets.
„Það skiptir öllu að áform um Suðurnesjalínu 2 gangi eftir því eins og staðan er þá getum við ekki annað þörfinni fyrir rafmagn á svæðinu. Við núverandi aðstæður er ljóst að það eru að glatast tækifæri á Reykjanesinu því að við þurfum að vísa annað, á aðra staði á landinu þar sem að vísu er vart mikið svigrúm en við sjáum einnig að við erum að missa fólk úr landi."
Landsnet vonast eftir niðurstöðu næstu daga. Óskandi sé að botn fáist í málið og að unnt verði að halda áfram með Suðurnesjalínu 2, framkvæmd sem sé mikilvæg til að tryggja raforkuöryggi íbúa og atvinnulífs á Suðurnesjum enda hafi stjórnvöld sett svæðið í forgang við uppbyggingu flutningskerfisins.