Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Breyta fyrirhuguðum Axarvegi vegna snjóalaga

13.09.2021 - 09:27
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Nýr heilsársvegur yfir Öxi var ekki kynntur fjárfestum í sumar, líkt og til stóð, vegna tafa. Ákveðið var að breyta veglínu til að sem minnstur snjór safnist á veginn. Þá reynist seinlegra að koma samvinnuverkefnum í vegagerð á koppinn en hefðbundnum útboðum.

Axarvegur styttir hringveginn á milli Djúpavogs og Egilsstaða talsvert og með heilsársvegi myndi styttingin einnig nýtast á veturna. Þetta er samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila og þar yrðu veggjöld. Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, segir að það hafi reynst tímafrekara að undirbúa slík verkefni en talið var. Kynningarfundur fyrir áhugasama verður haldinn fyrir áramót og eftir það hefst ferli sem kalla má samkeppnisviðræður. Þær taka lengri tíma en hefðbundið útboð. Viðræðurnar hefjast með markaðssamtali þar sem Vegagerðin ræðir við áhugasama. Þegar því er lokið undirbúa viðkomandi aðilar sitt fyrsta tilboð. Eftir það fara fram samningaviðræður og að þeim loknum loknum leggur Vegagerðin fram lokaútboðsgögn sem hafa hugsanlega breyst á samningstímanum. Þá loks geta er hægt að bjóða í verkið. Erfitt er að segja hvenær þessu ferli lýkur og framkvæmdir við nýjan Axarveg geta hafist. „Þetta er öðruvísi og þessi ferill er lengri og hann hefur ekki verið mikið praktíseraður á Íslandi og alls ekki í tengslum við framkvæmdir sem þessar. Þannig að það þarf að slípa þetta allt til og er mikil vinna,“ segir Bergþóra.

Hún segir að sumarið hafi verið nýtt til rannsókna og veðurfræðingar hafi lagt til breytingu á veglínu. „Við fengum til liðs við okkur veðurfræðinga. Við vorum sérstaklega að skoða veglínuna með tilliti til snjóalaga því að það verður nú kannski úrslitaatriði þegar menn fara svo að nota veginn. Þá komu tillögur að breytingum sem hefur verið unnið að. Það kostar ákveðið ferli. Það þarf að leggja inn til Skipulagsstofnunar til samþykkis og svo framvegis. Þó að það sé ergilegt núna að verða fyrir töfum þá er ekki tjaldað til einnar nætur og þetta á náttúrulega að vera sem allra best til langrar framtíðar,“ segir Bergþóra. 

Einnig hafi komið í ljós að í framkvæmdina þurfi fleiri námur en fyrst var talið og koma þurfi námum inn í skipulag.