Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Áfram dregur úr atvinnuleysi

13.09.2021 - 11:47
Mynd með færslu
 Mynd: Matthew Henry - Burst
Atvinnuleysi minnkaði um rúmlega hálft prósentustig í ágúst og áfram er gert ráð fyrir að það minnki á komandi mánuðum. Almennt skráð atvinnuleysi mælist nú 5,5 prósent en var þegar verst lét 11,6 prósent.

Þetta kemur fram í nýrri hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var skráð atvinnuleysi í ágúst 5,5 prósent af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði og hafði minnkað úr 6,1 prósent frá því í júlí. Um 11.500 manns voru á atvinnuleysisskrá í ágúst. Almennt skráð atvinnuleysi náði hámarki í janúar 2021 þegar það var 11,6 prósent og hefur þannig minnkað um 6,1 prósentustig síðan.

Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að áfram dragi úr almennu atvinnuleysi og að það verði á bilinu 5,1 til 5,4 prósent sem er örlítið hærra en það var í upphafi ársins 2020. Það er háð því hvort að fólk haldi störfum sínum eftir að ráðningarstyrkir renna sitt skeið. Alls hafa verið ráðið í rúmlega 4.500 störf með ráðningarstyrkjum frá því í apríl og segir í hagsjánni að það sé ein veigamesta ástæða minnkandi atvinnuleysis. 

„Nú í september byrja þessir ráðningarstyrkir að renna út og skiptir miklu hvort fólk á ráðningarstyrkjum heldur ráðningum sínum eða hvort þær taki enda. Almennt hefur verið góð reynsla af ráðningarstyrkjum í gegnum árin, en aðstæður nú eru töluvert öðruvísi en verið hefur. Það skiptir auðvitað fyrir áframhaldandi þróun atvinnuástands að fólk á ráðningarstyrkjum haldi störfum sínum.“ segir í hagsjánni.

Almennt atvinnuleysi minnkaði alls staðar á landinu nema á Vestfjörðum milli júlí og ágúst. Mest dró úr atvinnuleysi á Suðurnesjum, um 1,2 prósentustig, og svo um 0,6 prósentustig á höfuðborgarsvæðinu. Atvinnuleysi er eftir sem áður langmest á Suðurnesjum, 9,7 prósent og á höfuðborgarsvæðinu, en það er ekki lengur tvöfalt meira á Suðurnesjum en á höfuðborgarsvæðinu eins og það var lengi vel.

„Þrátt fyrir áföll í baráttunni við faraldurinn lítur áfram út fyrir að frekar dragi úr atvinnuleysi á næstunni. Staðan hér innanlands hefur ekki enn haft veruleg neikvæð áhrif á komur ferðamanna til landsins, þó væntingar hafi verið um fleiri komur. Eins og áður skiptir baráttan við faraldurinn í helstu viðskiptalöndum okkar miklu og sama má segja um afdrif ráðninga vegna styrkja,“ segir í hagsjánni.