Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Útvíkkun einsleitrar myndlistarsenu

Mynd: Hólmar Hólm / Hólmar Hólm

Útvíkkun einsleitrar myndlistarsenu

12.09.2021 - 10:00

Höfundar

Sýningin Samfélag skynjandi vera, í Hafnarborg menningar- og listamiðstöð, er hugarfóstur sýningarstjóranna Wiolu Ujazdowsku og Huberts Gromny. Sýningunni er ætlað skapa vettvang þar sem margar raddir mætast og ólíkir möguleikar tjáningar og skynjunar eru skoðaðir.

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:

Árið 2011 hóf þáverandi forstöðumaður Hafnarborgar, Ólöf Kristín Sigurðardóttir, þá nýlundu í íslenskri myndlistarsenu að senda út kall eftir hugmyndum að haustsýningu safnsins. Sérstaklega voru hvattir leiks lítt reyndir sýningarstjórar, eða fólk sem ekki hafði langan feril að baki á sviði sýningargerðar. Þetta var nokkuð djarft útspil á sínum tíma, þar sem flestar sýningar og viðburðir á myndlistarsviðinu voru yfirleitt undir stjórn starfsmanna safnanna, og því ekki mikið um óvænt útspil að ræða í sýningarstjóraflóru landsins. Þetta fyrirkomulag hefur getið af sér fjölbreyttar og oft á tíðum tilraunakenndar sýningar, þar sem nýliðar hafa fengið að spreyta sig á þeirri áskorun sem það er að þróa hugmynd og raungera hana í formi myndlistarsýningar. Og nú, sléttum áratug síðar, er þetta fyrirkomulag orðið að hefð og segja má að haustsýningaröð Hafnarborgar slái upphafstóninn að nýjum menningarvetri ár hvert, og margir bíða spenntir eftir að sjá hvaða verkefni safnið veðjar á hverju sinni.

Sýningin í ár ber yfirskriftina Samfélag skynjandi vera og er hugarfóstur þeirra Wiolu Ujazdowska og Huberts Gromny. Bæði eru þau pólskir innflytjendur hér á landi með fjölbreytta hæfileika, Wiola er myndlistarkona, gjörningalistamaður og listfræðingur, og Hubert er myndlistarmaður, fræðimaður, sýningarstjóri og rithöfundur. Sem sýningarstjórateymi láta þau nú að sér kveða í íslenskri myndlistarsenu og taka sér stöðu með nokkuð áhugaverðum formerkjum. Annars vegar nálgast þau safnið sem vettvang lifandi samtals sem þróast mun á sýningartímabilinu, og hins vegar skapa þau pláss fyrir fjölbreyttan hóp ungra listamanna af erlendum uppruna, í bland við reyndari íslenska listamenn. Það er heldur óvenjulegt að sjá svo fjölbreyttan hóp af þátttakendum öðlast dagskrárvaldið íslensku listasafni, sér í lagi unga listamenn með bakgrunn frá austur-Evrópu sem búsettir eru hér á landi. En eins og umræða síðasta vetrar sýndi þá er þörf á að opna íslenska myndlistarsenu fyrir fólki af öðru þjóðerni en íslensku, og skapa rými fyrir aðrar raddir en þær sem einkenna sviðið alla jafna. Sýning þeirra Wiolu og Huberts er einmitt gott innlegg í þessa umræðu, og sú ákvörðun listráðs Hafnarborgar að veita þeim tækifæri á að spreyta sig á haustsýningunni í ár er vonandi merki um að einsleitni íslensks myndlistarsamfélags sé á undanhaldi.

Þótt fjölmenning sem slík sé ekki beinlínis viðfangsefni þessarar sýningar, þá er ásetningur sýningarstjórateymisins sá nýta safnið sem vettvang fyrir stefnumót radda úr mismunandi áttum, og skapa rými fyrir „ólíka möguleika tjáningar og skynjunar“, eins og segir í kynningarefni. Viðfangsefni sýningarinnar er einmitt skynjun og sambýli skynjandi vera, nokkuð vítt og opið þema sem er augljóslega þróað undir áhrifum frá póst-húmanisma. Leitast er við að nálgast samband okkar við heiminn á nýjan hátt, hvort sem það er samband mannfólks og náttúru, mannfólks og menningar eða samband manneskjunnar við sjálfa sig. Þannig er sýningunni ætlað að ýta undir annarskonar skynjun á umheiminum og veru okkar í honum, og hvetur okkur til að ímynda okkur hvað það er að vera manneskja í stærra samhengi en hinu mannlega og hversdagslega. Þetta er svo sem ekki ólíkt hlutverki myndlistar yfirleitt og segja má að skynjun í víðu samhengi sé einmitt það svið sem myndlistin kannar. En hér fáum við innsýn í heiminn sem samsafn skynjandi vera af öllu tagi, hvort sem þær eru í mannsmynd eða í formi dýra, plantna, anda, frumkrafta, geimvera, jarðvegs eða jafnvel barnaleikfanga, eins og verkin á sýningunni bera vitni um.

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir kíkti á haustsýningu Hafnarborgar nú á dögunum sýninguna Samfélag skynjandi vera. En sú sýning er hugarfóstur sýningarstjóranna Wiolu Ujazdowsku og Huberts Gromny og er henni ætlað skapa vettvang þar sem margar raddir mætast og ólíkir möguleikar tjáningar og skynjunar eru skoðaðir. Ólöf Gerður segir okkur frá þessari forvitnilegu Hafnarfjarðarsýningu í þætti dagsins.
 Mynd: Hólmar Hólm

Sýningarstjórarnir vilja draga fram mikilvægi skynjunar og líkamlegrar upplifunar í að öðlast skilning, skilning sem þau vilja meina að fáist á forsendum næmni og tilfinninga fremur en rökhugsunar og vitsmuna. Með þessari nálgun stilla þau upp tólum tvíhyggjunnar sem aðskilur tilfinningar frá rökhugsun. Þessi nálgun í að setja listir og vísindi á sitt hvorn básinn er orðin nokkuð viðvarandi í íslenskri myndlistarsenu þrátt fyrir að löngu sé búið að afbyggja þessa tvenndarhugsun, bæði innan listheimsins sem og fræðiheimsins. Um nokkurt skeið hafa verið á lofti straumar innan fræðasamfélagsins sem nýta sér einmitt tilfinningar, skynjun og líkamann til greiningar og kenningasmíði, og sömuleiðis eru listsköpun og akademískar rannsóknaraðferðir ekki lengur talin ósamrýmanleg svið með tilkomu listrannsókna. Þessi nálgun er þó ekki það fyrirferðarmikil á að hún halli á heildaryfirbragð sýningarinnar þótt hún sé sett fram í sýningarkonseptinu sjálfu.

En „Samfélag skynjandi vera“ ber með sér víðan ramma, viðfangsefnið er risastórt og sýningin umfangsmikil. Hún telur yfir 20 manns með fjölbreyttan bakgrunn, ekki einungis landfræðilega og menningarlega, heldur koma þátttakendur þar að auki úr ólíkum sviðum myndlistar, gjörningalistar, dansi og fræðimennsku. Sýningin fyllir öll sýningarrými Hafnarborgar á báðum hæðum og flæðir inn í bakrými safnsins þar að auki. Það myndast óneitanlega bil milli verkanna á efri og neðri hæð sem snúið er að brúa, auk þess sem „dauð“ rými myndast milli bakrýma og aðalrýmis á efri hæð sem hefði mátt virkja betur í uppsetningunni.

Segja má að verkin fari út um víðan völl og teygi konsept sýningarinnar í ýmsar áttir, dálítið eins og amaba sem ferðast um með sín frumuútskot og umlykur allt það sem hún skynjar sem mögulega næringu. Ég var dálítið ringluð við að ganga í gegnum sýninguna þar sem mér fannst stundum eins og viðfangsefni sýningarinnar væri orðið óljóst og tengingar einstakra verka við heildarkonseptið langsóttar. Stundum var ég stödd í pólitískri sýningu um hvað það þýðir að tilheyra samfélagi og hvaða merkingu við leggjum í hugtök eins „heima“ eða „að heiman“, og öðrum stundum var ég stödd í sýningu sem fjallaði um umhverfislegar áskoranir, dýr í útrýmingarhættu og kosmískar pælingar um alheiminn. Ef til vill er það einmitt ásetningur sýningarstjóranna að rugla áhorfandann í ríminu með þessum hætti, en ég tel þetta þó vera veikleika sýningarinnar - henni færist of mikið í fang og fyrir vikið þynnist konseptið út svo erfitt verður að finna fyrir þeim „undraheimi samskynjunar“ sem verkefnið vill bjóða upp á.

Þetta er ágætis frumraun hjá þeim Wiolu og Hubert, og sýningarstjórnunarleg nálgun þeirra er einmitt eitthvað sem íslensk myndlistarsena þarf á að halda, með þeim frískandi og fjölbreytta hópi sýnenda sem þau hafa valið til liðs við sig til að ávarpa þetta stóra viðfangsefni sem sýningin fjallar um. Sem stendur liggur ekki fyrir full dagskrá í tengslum við sýninguna og ekki ljóst hvernig hún mun þróast á sýningartímanum. En áhugavert verður að sjá hvernig Hafnarborg, safnið sem hýsir þetta utanaðkomandi verkefni sjálfstætt starfandi sýningarstjóra, muni nota tækifærið og vera sá stuðningur sem verkefnið þarfnast með því að opna safnið enn frekar og virkja það sem vettvang samtals, samskynjunar og fjölbreyttrar tjáningar, eins fyrirætlan sýningarstjóranna segir til um.

Tengdar fréttir

Pistlar

Iða feminískra strauma í Listasafni Árnesinga

Pistlar

Sköpunarferlið að baki hversdagslegra hluta

Pistlar

Framlag listanna til fræðilegrar orðræðu

Pistlar

Kaðlar, hnútar og nótir í miðju kafi