Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Skjálftar og hugsanlegur undanfari goss á Snæfellsnesi

Sjö eldstöðvakerfi á Íslandi láta nú á sér kræla. Síðan í maí hefur verið jarðskjálftavirkni á Snæfellsnesi en þúsund ár eru frá því að gaus þar síðast. Jarðeðlisfræðingur býst þó ekki við glóandi hrauni upp á yfirborð þar á þessu ári. 

Hið vinalega eldgos á Reykjanesskaga tók við sér á ný klukkan fimm í gærmorgun eftir níu daga hvíld. Í gærkvöldi sást svo aftur glóandi hraun í gígnum. 

Heldurðu að þessu ljúki bráðlega?

„Það er nánast ógerningur að segja neitt til um það og ekkert, í raun og veru, sem við mælum sem bendir til þess að gosi sé að ljúka eða að það muni halda áfram,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur.

Virknin nú er engu minni en hún var áður en gosið tók sér hlé. Eldgosið hefur fært vísindamönnum margvíslegan fróðleik. Til að mynda staðsetning þess. 

„Þetta er á ólíklegasta stað á öllum Reykjanesskaganum fyrir gos. Þetta er inn á milli virkustu eldstöðvakerfanna á svæðinu. Milli Reykjaness og Svartsengis annars vegar og Krýsuvíkur. Þau kerfi eru miklu virkari,“ segir Páll.

Ótvíræð merki vaxandi virkni á Snæfellsnesi

En Reykjanesskaginn er ekki eina svæðið á Íslandi þar sem virkni. Eldstöðvakerfin eru alls 30 sem eru misvirk. Virkustu kerfin: Grímsvötn og Hekla, þau eru í gangi. Síðan bættust við Bárðarbunga og Öræfajökull. Þá er landris í Öskju. 

„Við megum heldur ekki gleyma þessum allra ólíklegustu. Það eru eldstöðvakerfin á Snæfellsnesi. Það vill svo til að einmitt eitt þeirra hefur sýnt ótvíræð merki um vaxandi virkni og það er Ljósufjallakerfið,“ segir Páll.

Líklega áratugir í gos á Snæfellsnesi

Upptökin eru milli Berserkjahrauns og Grábrókar, skammt vestan Langavatns. Þar hefur orðið fjöldi skjálfta frá því í maí. Páll segir ólíklegt að þar gjósi á þessu ári.

„Nei, það er frekar ólíklegt. Það er ákveðin regla á hlutunum þrátt fyrir allt. Ef eldstöð hefur ekki gosið lengi þá virðist aðdragandi goss vera langur líka. Á þessu kerfi þarna hefur ekki gosið frá landnámsöld. Þá gaus í Rauðhálsum sem er skammt fyrir vestan þetta. Það eru því liðin meira en þúsund ár. Það táknar líklega að gos er varla yfirvofandi næstu áratugina jafnvel þó þetta sé farið að gera vart við sig núna. Þarna er stóra lexían Eyjafjallajökull sem er nú frekar mild eldstöð og hefur ekki gosið oft. Aðdragandi gosanna tveggja 2010 var að minnsta kosti 18 ár frá því við tókum eftir því að það var vaxandi virkni þangað til sú virkni náði upp á yfirborð. Svo það er kannski viðmið. Varðandi Snæfellsnes þá er sennilega þessi aðdragandi mun lengri,“ segir Páll.

 

 

Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson / RÚV - Bragi Valgeirsson