Gripnir við að gera hluti sem þeir vildu aldrei sýna

Mynd: Æði / Skjáskot

Gripnir við að gera hluti sem þeir vildu aldrei sýna

12.09.2021 - 14:00

Höfundar

„Fólk er að fara að sjá hvernig ég var, og hvernig mér leið. Getur dæmt hvernig persóna ég er,“ segir áhrifavaldurinn Patrekur Jaime um skuggahliðar þess að vera persóna í vinsælum raunveruleikaþætti. Þeir félagar Patrekur, Binni og Bassi snúa aftur í nýrri seríu af þáttunum Æði þar sem þeir sýna ekki alltaf sínar bestu hliðar.

Raunveruleikastjörnurnar Binna Glee og Patrek Jaime þekkja Íslendingar á öllum aldri úr raunveruleikaþáttunum Æði þar sem þeir bregða á leik ásamt félaga sínum Bassa Maraj. Þriðja serían var sett í sýningu á Stöð 2 Plús í vikunni. Binni og Patrekur kíktu í Lestina á Rás 1 til að segja frá vinskapnum og sjónvarpsævintýrinu, en viðurkenndu strax í byrjun viðtals að þeir hlustuðu sjálfir ekki á Rás 1. „Ég held ég hafi kannski gert það með pabba í bílnum þegar ég er að keyra suður og hann er að stjórna,“ segir Binni þó.

Dreymdi um að verða raunveruleikastjarna

Patrekur kveðst alltaf hafa átt sér draum um að verða raunveruleikastjarna, síðan hann fór að fylgjast með ólíkindatólunum í bresku þáttunum Geordie Shore. „Það var æði,“ segir hann. „Miklu grófara en Jersey Shore og það er ekki í lagi að vera að horfa á það tólf ára.“ Svo varð hann heillaður af Real Houswives, Keeping up with the Kardashians og Playboy-höllinni. „Ég hef verið að horfa á svo mikið,“ segir hann.

Vilja ekki endilega sýna baktalið

Binni hefur hins vegar lítið fylgst með raunveruleikasjónvarpi og því var jafnvel enn súrrealískara fyrir hann að verða skyndilega karakter í slíkum þætti. Hann var þó vanur sviðsljósinu því Binni Glee var orðið þekkt nafn í áhrifavaldaheiminum á Snapchat. Þeir höfðu reyndar báðir getið sér góðs orðs á samfélagsmiðlum í fjögur ár þegar tökur á þáttunum hófust. „Samfélagsmiðlar er einhvern veginn raunveruleikasjónvarp,“ segir Patrekur en bætir við að munurinn sé helst fólginn í því að þar hafi hann meiri stjórn á því sem sýnt er. „Þú ræður hvað þú setur á samfélagsmiðlana en þau eru að grípa okkur að gera hluti sem við viljum ekki endilega sýna.“ Binni tekur undir og bætir við: „Kannski smá baktal.“

Sérstaklega berskjaldaðir í nýju seríunni

Fyrst um sinn voru þeir afar meðvitaðir um myndavélina en nú segja þeir að það hafi breyst. „Ég pæli ekkert í því lengur, ekki neitt,“ segir Patrekur. Fyrir þriðju seríuna fylgdi tökulið fast á hæla þeirra í heilan mánuð og það gekk á ýmsu á þeim tíma. „Maður er ekkert alltaf hress í þrjátíu daga svo það kemur fullt af einhverju dóti. Maður segir sumt og finnst það minnsta málið, en svo þegar það er að koma út er maður bara: Þetta er að gerast. Fólk er að fara að sjá hvað ég sagði, hvernig ég var og hvernig mér leið. Getur dæmt hvernig persóna ég er.“ Og þessu getur fylgt óöryggi. „Maður fær alveg kvíða yfir þessu. Við erum sérstaklega berskjaldaðir í nýju seríunni og opnum okkur mikið.“

Voru allir að ganga í gegnum eitthvað á meðan á tökunum stóð

Binni segir að félagarnir hafi alls ekki lagt upp með að sýna þær hliðar sem birtast áhorfendum í nýju seríunni. „En við vorum allir að ganga í gegnum eitthvað þegar við vorum í tökunum. Og það var smá perfect að við séum að sýna hina hliðina, hvernig okkur líður og svona.“

Það hefur komið fyrir að þeir hafa séð að sér og beðið um að vissir hlutar fari ekki í loftið. „Við fórum til Akureyrar í þessari seríu sem verður sýnd, og þá kom smá drama á milli okkar og krúsins.“ Binni tekur undir það. „Sérstaklega hjá mér,“ segir hann. Patrekur man eftir því. „Binni alveg skellti hurð framan í andlitið á einni.“

Binni gengst við ásökunum um hurðaskellingar. „Ég er alveg pirraður pirraður.“ Fyrir forvitna áhorfendur áréttar Patrekur þó að sú sena hafi líklega ekki ratað í þáttinn, en það er talað um þetta atvik og þá kemur í ljós hvað gekk á sem gerði Binna svo frústreraðan.

Rífast oft en sættast alltaf að lokum

Vinirnir rífast oft og rökræða í þáttunum, en það getur verið erfitt að endurupplifa samtölin eftir að þeir jafna sig. „Við erum kannski að rífast en sættumst svo, svo kemur það upp fimm mánuðum seinna. Þá fer þetta aftur á þann stað að maður er bara: Hey, ég er smá sammála því sem ég sagði þarna. Þá svona byrjar þetta eiginlega aftur.“

Það  hefur líka í gegnum tíðina oft soðið upp úr á milli Binna og Patreks og stundum hafa þeir verið í þagnarbindindi lengi í senn. „Ég og Patti höfum rifist þannig að við tölum ekki saman í níu mánuði,“ segir Binni. „En ég er búinn að fatta að þegar við rífumst munum við alltaf enn þá verða vinir.“ Og hver er galdurinn?  „Við bara gleymum því.“

Karl með göngugrind hrósaði þeim fyrir að vera æði

Vinsældir félaganna hafa aukist jafnt og þétt og það kemur þeim á óvart hve breiður aldurshópur fylgist með þeim í dag. „Þegar ég var samfélagsmiðlastjarna var ég bara: Vá, ég er geðveikt þekktur. Svo hugsa ég núna: Guð, ég var ekkert á þessum tíma eins og núna. Athyglin sem við erum að fá núna er sjúklega mikil,“ segir Patrekur. „Það kom einn karl til mín og Bassa á Saffran um daginn með alveg göngugrind, mjög gamall, og var bara: Þið eruð æði. Ég var bara: What, það er geggjað.“

Skilja ekki alltaf hvað eldra fólk segir

Orðaforði drengjanna í þáttunum hefur vakið athygli, þeir nota gjarnan lítt eða óþekkta enska frasa um hluti sem þeir segja að miklu leyti læra af þáttunum RuPauls Drag Race. Í dag er orðið living eitthvað sem þeir nota mikið, en slay, sem áður var í mikilli notkun er á undanhaldi. Þegar Binni er spurður hvað slay þýðir svarar hann: „Slay er svona: Þú ert slay og þá ertu æði. Þú ert killing it. Ég kann ekki að segja það á íslensku.“ En íslenskir frasar eru líka í notkun. „Við segjum: Ókei, vinkona mín kær. Það er bara svona, hver sem er getur verið vinkona.“

Þeir hafa lent í því að eldra fólk kvarti yfir að skilja ekki allt sem sagt er. „Ég lendi í að fólk spyr: Hvað þýðir það? Og ég veit ekki hvað ég á að segja,“ segir Patrekur en bætir við að vandinn sé gagnkvæmur. „Ég skil ekki svona 50% af íslensku. Það eru svo mörg orð sem ég hef ekki hugmynd um hvað þýða.“

Léttir þegar samfélagsmiðlarnir voru hakkaðir

Þeir segja ástæðuna að hluta vera hvað þeirra kynslóð lærir mikið af og notast víð símann, þaðan sem þeim berst mikið af bandarísku afþreyingarefni.

Báðir nota þeir símann bæði til að sækja afþreyingu en líka við störf. Það kemur fyrir að pressan á að vera alltaf að deila efni á samfélagsmiðlum verði yfirþyrmandi. „Um daginn var Instagrammið okkar hakkað og mér fannst það alveg næs. Svo bara fengum við hann til baka.“ Patrekur vísar þar til þess þegar erlendur hakkari herjaði á íslenska áhrifavalda og gerði aðgang þeirra óvirkan. „Við þurftum að senda mynd af okkur með einhvern kóða. Þetta var stressandi því maður vissi aldrei hvort maður væri að fá aðganginn aftur, en það var alveg næs að vera ekki á Instagram. Maður var ekki eins mikið í símanum,“ segir Binni og Patrekur tekur í sama streng. „Þá fékk maður meiri tíma til að nota í annað.“

„Fólk á ekki að herma eftir því sem við segjum þegar við rífumst“

Aðspurður hvort hann líti á sig sem fyrirmynd segir Patrekur að hann líti ekki endilega á sig sem slíka. „Fólk á ekki að herma eftir okkur þegar við drekkum, hversu mikið við drekkum eða hvað við segjum þegar við rífumst. En fólk getur horft á okkur og litið upp til einhvers,“ segir hann.

Binni segist hins vegar lengi hafa verið upptekinn af því að sýna gott fordæmi. „Ég hélt ég þyrfti að vera fyrirmynd. Var á samfélagsmiðlum sem Binni Glee en svo sem Brynjar Steinn, the real me,“ segir hann. „Eftir að ég byrjaði í Æði ákvað ég að reyna að sýna Brynjar Stein frekar en Binna Glee. Binni Glee er meira svona: Hæææ, bara einlægur og lífið er æði. En Brynjar Steinn er alveg crazy.“ Patrekur segir að þessar tvær persónur hafi að hluta sameinast í eina á góðan hátt. „Mér fannst ég alltaf þurfa að passa hvað ég segi og geri þegar ég byrjaði, fór alveg í smá karakter. Ég hélt ég þyrfti að vera fyrirmynd en ég þarf þess ekki. Ef ég er fyrirmynd, geggjað. En ég hélt ég þyrfti að vera það.“

Þegar Binni Glee byrjaði fyrst á Snapchat segist hann hafa orðið fyrir áreiti og oft fengið ljót skilaboð. „Þetta er miklu betra í dag heldur en 2016-2017. Ég held að fólk sé opnara,“ segir hann. Patrekur tekur í sama streng og segir að í dag séu viðbrögðin að mestu leyti jákvæð.

Vinstrisinnaður því hann er örvhentur

Fyrrnefndur Bassi Maraj, þriðja stjarna þáttanna, gerði mikinn usla á Twitter þegar hann skaut á Bjarna Benediktsson í óvæntum samræðum. Þar bað hann Bjarna að redda sér reikning á Panama og gaf ýmislegt misfagurt í skyn um fjármálaráðherra. Þegar Hannes Hólmsteinn blandaði sér í málið fékk hann að kenna á því líka. Þessi samskipti vöktu gríðarmikla athygli og ljóst að Bassi hefur skoðanir á pólitík.

Patrekur og Binni segjast þó ekki mjög upplýstir eða áhugasamir. Patrekur kveðst þó líta á sig frekar sem hægrisinnaðan. „Ég myndi segja að ég væri miðjumaður en hallast til hægri. Mér finnst það meika meira sens, en ég veit að yngri kynslóðin er meira vinstri,“ segir Patrekur sem kveðst vera íhaldssamari en margir jafnaldrar hans. „En ég er ekki sammála öllu sem hægra fólk gerir og vil alveg breyta einhverju. Þess vegna myndi ég vera miðjan og halla til hægri.“ Binni segist líta frekar á sig sem vinstrisinnaðan, „en eina ástæðan er að ég er örvhentur,“ segir hann.

Of flókið að skilja spurningarnar

Sjálfur sagðist Binni hafa ætlað sér að glöggva sig frekar á því hvaða flokk sér litist best á með því að taka kosningaprófið, en hann skildi ekki spurningarnar. „Mig langar alveg að vita meira en kannski er ég bara latur. Mig langar alveg að vita hvaða flokk ég vil kjósa.“

Báðir eru þeir í fyrsta sinn að kjósa til Alþingis og þeir eru sammála um að þeir muni mæta á kjörstað sama hvað, því kosningarétturinn sé þeim dýrmætur. „Ég held það myndu fleiri hafa áhuga á að kjósa ef það væri ekki verið að nota þessi gömlu erfiðu orð eins og verið er að gera,“ segir hann. „Það myndi gera það svo mikið léttara fyrir fólk að kjósa ef þetta væri auðveldara og útskýrt betur.“ Sjálfur segir hann að honum séu heilbrigðis- og loftslagsmálin afar hugleikin, og málefni flóttafólks. Stefnur flokkanna í þessum efnum munu endanlega skera úr um hvaða flokk hann ætlar að kjósa, og Binni tekur undir það. Binni er í Háskóla Íslands að læra japönsku en Patrekur á sér draum um að gerast fasteignasali og flytja erlendis.

Rætt var við Patrek Jaime og Binna Glee í Lestinni á Rás 1.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég get staðfest að þessi samskipti eru ekki til“

Sjónvarp

Akkúrat passlega mikið „beef“ fyrir fólk á ketó