„Alltaf með það á herðunum að þetta myndi koma"

12.09.2021 - 21:10
Bóndi í Skagafirði sem neyðist nú til að farga um fimmtán hundruðum fjár segir tími til komin að hugsa meðhöndlun á riðuveiki upp á nýtt. Auka ætti sýnatöku til að fyrirbyggja sársaukafullar aðgerðir eins og niðurskurð.

Þung skref

Það var heldur þungt yfir réttum í Staðarrétt í Skagafirði í dag þegar nokkur þúsund fjár voru dregin í dilka. Þar á meðal fé frá Syðra-Skörðugili þar sem riða greindist á föstudag. Elvar Einarsson, bóndi á bænum segir göngurnar hafa tekið á. „Það er aldrei góður tími en ég veit það ekki, en ég hugsa að það hefði verið svona, alla vegana þægilegra að þurfa ekki að vita þetta áður en maður fór í göngurnar, það voru svona þung skref stundum," segir Elvar. 

„Hjörðin verður öll drepin og svo hefst bara hreinsunarstarf"

Um fimmtán hundruð fjár eru á bænum, fullorðið fé og lömb. Stofn sem talinn er afar góður en búið var það afurðahæsta í Skagafirði síðasta haust. „Ég heyrði að það væri komin beiðni á niðurskurð og þetta er eiginlega faktískt þá ekki í mínum höndum. Hjörðin verður öll drepin og svo hefst bara hreinsunarstarf, samningaviðræður og ég held það sé bara nóg fram undan í einhverju svona." 

Siðast riða á bænum fyrir 30 árum 

Á síðasta ári greindist riða á fimm bæjum í austanverðum Skagafirði, og á einum bæ í Vestur-Húnavatnssýslu. Elvar segir óttann um að verða næstur í röðinni því alltaf verið til staðar. „Ég er náttúrlega á miklu riðusvæði og það var skorið síðast niður hér fyrir 30 árum á Syðra-Skörðugili. Það er búið að koma riða hér allt í kring um mig núna síðustu ár þannig að maður var eiginlega svo sem alltaf með það á herðunum að þetta myndi koma, ekki spurning um hvort heldur bara hvenær."

Engin framtíð meðan sjúkdómurinn er alltaf yfirvofandi

Hann segir tímabært að fara að hugsa málin upp á nýtt. „Ég held það væri bara hægt að gera svo miklu meira til að fyrirbyggja þetta, taka bara sýni, þetta er bara svona strokusýni eins og í covid, það er ekkert mál að greina þetta. Og fara að rækta sig frá þessum erfiðu tilfellum eða þeim sem eru í meiri áhættuhópi, það væri hægt að gera svo miklu meira í þessum málum. Ég held að þetta lifi í jarðveginum svo lengi að það er alveg sama þó við tökum fé aftur að þetta er alltaf yfirvofandi aftur og aftur og það er svo sem engin framtíð í því."