Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Áfram gosórói – Gas leggur yfir Voga

Mynd með færslu
 Mynd: Matthias Vogt - Volcano Heli
Enn virðist vera þónokkur órói við gosstöðvarnar. Í gærmorgun jókst virknin þegar hraun tók að flæða undan gígnum og um kvöldmatarleytið í gærkvöld fór að gjósa úr gígnum sjálfum. Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir nokkurt gas hafa stigið upp en erfitt sé að segja til um það hvort það leggi yfir höfuðborgarsvæðið.

„Óróinn er enn þá hátt uppi en það er þoka og leiðindaveður á svæðinu, þannig að það er lítið hægt að sjá hvað er að ske. Það kom smá gat í þokuna áðan og þá sá ég að það er enn að gjósa úr gígnum, þannig að það er ennþá virkni í gangi,“ segir hún.

Þá hafi mælst gas við gosstöðvarnar og eins í Vogum. „Þannig að það er aðeins að dreifa sér í þá áttina með vindinum. Mér finnst ólíklegt að það fari yfir höfuðborgarsvæðið, en það getur alltaf borist aðeins yfir, en það er alla vega ekkert að mælast þar akkúrat núna,“ segir Lovísa. 

Lögreglan á Suðurnesjum hefur lokað leiðinni inn á gosstöðvarnar vegna veðurs.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV