Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Segir frekari hagræðingar þörf hjá afurðastöðvum

11.09.2021 - 18:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sölvi Andrason
Það hefur reynst flókið að manna sláturhús þetta haustið og verr gekk að fá innlent verkafólk til starfa en í fyrra. Formaður Landssamtaka sláturleyfishafa segir að þeir hefðu gjarnan viljað greiða sauðfjárbændum hærra verð fyrir afurðir en raunin varð. Sláturhúsin séu í þröngri stöðu.

Sauðfjárslátrun er nú hafin í flestöllum sláturhúsum landsins, enda fyrstu göngum víða lokið og fé komið af fjalli. Búist er við að yfir milljón fjár komi af fjalli í haust og af því fari um eða yfir 60% til slátrunar.

Erfiðara að fá innlent verkafólk til starfa en í fyrra

Ágúst Torfi Hauksson, formaður Landssamtaka sláturleyfishafa, segir að staðan sé almennt góð í sláturhúsunum þó mönnun hafi reynst flóknari nú en í fyrrahaust. Þá voru óvenjumargir íslenskir starfsmenn í sláturhúsum því erfitt reyndist að flytja inn erlent starfsfólk í faraldrinum. „Það gengur til dæmis verr núna að manna með innlendu vinnuafli heldur en var í fyrra. Og það eru ýmis flækjustig til dæmis varðandi bólusetta og óbólusetta starfsmenn og fleira í þeim dúr sem gerir það að verkum að starfsmannamál eru mjög flókin þetta haustið.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson

Hraðpróf og strangar sóttvarnir

Óbólusettir erlendir starfsmenn fari í sóttkví og sýnatöku eins og lög geri ráð fyrir og nú sé hægt að beita hraðprófum við eftirlit. Auk þess verði strangar sóttvarnir viðhafðar og kröfum um hólfaskiptingu fylgt eftir. „Það er hægt að hólfaskipta matar- og kaffitímum og takmarka fjölda í hvíldarrýmum og tryggja persónuvarnir til þess að minnka líkur á því, ef smit berst inn í starfsmannahóp, að það dreifi sér úr hófi,“ segir Ágúst.

Afurðastöðvarnar ráði ekki við meiri verðhækkun

Um 5% hækkun varð á afurðaverði til bænda í haust og það segir talsmaður sauðfjárbænda vonbrigði. Bændur hafi vænst meiri hækkunar. Ágúst segir allar afurðastöðvar sem birta ársreikninga hafa verið reknar með tapi í fyrra og lengra hafi þær ekki komist. „Við vitum alveg að afkoma sauðfjárbænda er ekki merkileg og það er mikil þörf á því að gera okkur kleift að greiða þeim hærra verð á þeirra framleiðslu sem þeir framleiða inn í sláturhúsin. En rekstur afurðastöðvanna hefur verið afskaplega þungur og það umhverfi sem við störfum við hefur ekki leyft okkur að fara hærra, því miður.“

Nauðsynlegt að heimila frekari hagræðingu

Og eigi afurðastöðvar að koma til móts við kröfur sauðfjárbænda um hærra afurðaverð, verði stjórnvöld að heimila frekari hagræðingu í greininni. Hægt sé að hagræða enn frekar í sláturgeiranum hér á landi, en til þess þurfi lagabreytingar. „Það gæti orðið greininni talsvert til framdráttar. Það hafa varið unnar um það skýrslur fyrir stjórnvöld, sem benda til þess að hagræðingarmöguleikar þar séu umtalsverðir,“ segir Ágúst.