Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ólíklegt að ný gosop séu að myndast

Mynd með færslu
 Mynd: Matthias Vogt - Volcano Heli
Veðurstofan fylgist grannt með eldgosinu við Fagradalsfjall eftir að gosórói jókst í morgun. Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur, segir að það sem gæti virst vera ný gosop séu pípur að brjóta sér leið á ólíkum stöðum. Veðurstofan varar fólk við því að ganga á hrauninu.

„Þegar maður horfir fyrst á þetta þá er þetta eins og þetta séu gosop, af því að það er hraun alls staðar í kring. En við höldum ekki eins og er að þetta séu ný gosop, heldur að þetta sé kvika að renna í þessum pípum og brjóta sér leið,“ segir hún. 

Virknin sé þónokkuð mikil einmitt núna. „Hún er með meiri hætti en hún hefur verið síðustu daga. óróinn er búinn að liggja alveg niðri og það er ekki búið að vera mikið að ske. En hann steig upp í morgun og þá sást glóð í gígnum og byrjaði að renna undan honum, ekki upp úr honum, heldur undan honum á hliðinni. Það er eitthvað að ske, svo við fylgjumst grannt með því hvert framhaldið verður.“