Missti alla hundana í covid

Mynd: Birkir Kristján Guðjónsson / Aðsent

Missti alla hundana í covid

11.09.2021 - 10:05

Höfundar

Birkir Kistján Guðmundsson kallar sig „dog-walker.“ Hann starfar við að fara í göngutúra með hunda, stundum nokkra í senn, á meðan eigendur þeirra eru í skóla eða vinnunni. Birkir missti viðskipti í covid en er aftur byrjaður að viðra fjóra til sex hunda á dag.

Oft er hundurinn kallaður besti vinur mannsins en Birkir Kristján Guðmundsson er sjálfur einn besti vinur hundsins. Hann starfar við að ganga með hunda annars fólks og hefur gert það í mörg ár en eins og margir hætti hann að geta sinnt starfi sínu í heimsfaraldri. „Eftir að covid kom missti ég alla hundana. Fyrir covid var ég að labba með fimm til sex hunda alla virka daga, en það fór niður í engan hund á tímabili,“ segir hann. En það er aftur nóg að gera hjá honum. „Það er fyrst núna í þessari viku sem ég er byrjaður að taka fjóra til sex hunda á dag. Það er meira að gera í þessu á veturna,“ segir Birkir í samtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2.

Mynd með færslu
 Mynd: Birkir Kristján Guðjónsson - Aðsent
Hundarnir eru prúðir í göngutúrum með Birki.

Birkir viðrar marga hunda en þarf að huga að samsetningu hunda í hverri ferð. Því þótt þeim þyki vænt um Birki líkar þeim ekki alltaf hverjum við annan. „Það er ekki sama hvaða hundur er. Ég er með þrjá schäfer-a sem ég get ekki tekið saman, ef þeir eru allir sama dag þarf ég að fara í þrjá mismunandi göngutúra.“ Hann byrjar því hvern dag á að púsla saman hundunum fyrir göngutúrana. „Ég tek í mesta lagi þrjá hunda í einu,“ segir Birkir.

Hann keyrir venjulega af stað og sækir einn hund, tekur þann með að sækja þann næsta en gengur svo frá heimili þess þriðja. „Ég er bara með lykla hjá fólki, fer inn og sæki hundana á meðan fólk er í starfi og skóla,“ segir hann. Hundarnir hlaupa á móti Birki þegar hann mætir því þeir þekkja hann og vita hvað er í vændum. Svo er farið í langan og hressandi göngutúr.

Birkir heldur úti síðu á Facebook og í gegnum hana geta áhugasamir hundaeigendur sett sig í samband við hann.