Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Gosið sést vel frá höfuðborgarsvæðinu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gosórói hefur aukist við Fagradalsfjall í kvöld og um sjöleytið tók að gjósa á ný upp úr gígnum. Í dag hefur kvikan flætt undan gígnum, ofan í Geldingadölum. Gosið sést vel frá höfuðborgarsvæðinu og glampinn sést langar leiðir. Sigþrúður Ármannsdóttir náttúruvársérfræðingur segir að þótt virknin í gígnum hafi tekið sig upp sé hún nokkuð stöðug.

„Það fór að sjást í glóð í hrauninu fyrr í dag, og fyrst var talið að væru ný gosop að opnast en það virðist ekki vera þannig. Heldur er þetta kvika sem rennur undir hrauninu og kemur svo upp hér og þar. Svo núna upp úr kvöldmat fór að sjást aftur koma upp úr gígnum, sem hefur ekki verið í marga daga,“ segir Sigþrúður. 

Þetta sé þó engin strókavirkni: „Þetta er bara ósköp rólegt, bara smávegis upp í loftið. Þetta er ekki þessi hviðuvirkni sem var áður. Ég sé að á næstu stöðvum hefur aukist óróinn aðeins, einkum um og upp úr hádegi, og hann hefur verið stöðugur síðan og þá fór þetta hraun að búbbla þarna upp.“

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir