Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Geldingadalir vakna á ný

Mynd: Matthias Vogt / Volcano Heli
Gosóróa varð vart í eldstöðinni í Geldingadölum í morgun en engin virkni hafði verið þar í níu daga. Hlaup í Vestari-Jökulsá í Skagafirði er í rénun.

Ekkert hafði gosið í Geldingadölum síðan 2. september en um fimm leytið í morgun hófst gosórói að nýju.

„Það jókst aftur órói þarna við Geldingadali snemma í morgun, væntanlega um fimm leytið eða eitthvað svoleiðis og hann heldur bara áfram. Þetta heldur áfram að rísa. Við höfum ekki séð neitt hraun ennþá koma upp úr gígnum en það getur tekið nokkra tíma frá því óróinn byrjar að aukast og þangað til að við förum að sjá eitthvað,“ segir Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands en á meðfylgjandi sem fréttastofa fékk sendar sést glögglega að hraun er komið ofan í gíginn. 

Þótt eldstöðin hafi haft hægt um sig um nokkurt skeið, þangað til í morgun, segir Böðvar að sérfræðingar hafi ekki verið farnir að huga að því að lýsa yfir goslokum.

Landris heldur áfram í Öskju og voru sjö minni háttar skjálftar á svæðinu í morgun en Böðvar segir það ekki óvanalegt á þessu svæði.

Jökulhlaup reyndist minniháttar

Þá hófst hlaup í Vestari Jökulsdá í Skagafirði í gær en það mun hafa verið minniháttar. „Það virðist í rénun. Þetta var aðallega rafleiðni sem hækkaði en það var ekki mikil hækkun, hvorki hækkun á vatnshæð eða aukið rennsli. Ekkert sem við sáum að neinu viti,“ segir Böðvar. Áin varð engu síður afar mórauð að lit og á stöku stað mátti greina brennisteinslykt.