„Bara það að spila á flygil getur reitt fólk til reiði“

Mynd: Ari Magg / Deutsche Grammophon

„Bara það að spila á flygil getur reitt fólk til reiði“

11.09.2021 - 08:16

Höfundar

Víkingur Heiðar Ólafsson gaf á dögunum út sína fjórðu aðalplötu fyrir útgáfufyrirtækið þekkta, Deutsche Grammophon. Platan hefur að geyma tónverk Mozarts og samtímamanna hans. Verkin spilar Víkingur á nútímaflygil, sem gæti farið öfugt ofan í íhaldssama áheyrendur og gagnrýnendur.

Á plötunni spilar Víkingur tónverk frá á 18. öld eftir Mozart og samtímamenn hans, Galuppi, Cimarosa, C.P.E. Bach og Haydn, á nútímaflygil og leyfir sér listrænt frelsi í túlkun sinni á verkunum.

Hann nefnir tónverk eftir Cimarosa sem dæmi í samtali við Guðna Tómasson í Víðsjá á Rás 1. „Verkin eru næstum jafn mikið mín verk og Cimarosa, ég kalla þetta á ensku arrangement eða umritun.“

Og þá vaknar spurning sem snýr að frelsinu til að umrita og breyta tónlist sem var skrifuð með ákveðnum hætti niður á blað fyrir mörghundruð árum: Má maður þetta bara?

„Ekki ætla almannavarnir að taka mig fastan fyrir það. Ég held að það megi. En ég veit ekki hvern ég ætti að spyrja. Það er erfitt að spyrja tónskáldin. Það er erfitt að hringja í lögregluna út af þessu. En það kemur í ljós.“

Hingað til hefur fólk brugðist vel við, segir Víkingur, og bætir við að það sé mikill munur á að taka upp klassíska tónlist í dag og seint á 20. öld.

„Það voru allir fastir í tónlistarkreddum, allt var svo einfalt, hvað mátti og hvað mátti ekki.“

Samkvæmt stífustu tónlistarkreddum hefði Víkingur til að mynda ekki mátt spila tónverk Mozarts á nútímaflygil, heldur hefði hann orðið að halda sig við 18. aldar hljóðfæri.

„Það er svo gott með nútímann að bæði gagnrýnendur og, það sem skiptir meira máli, áheyrendur hugsa ekki svona, þetta er ekki svona klippt og skorið. Ef maður fer raunverulega inn í þennan heim og er trúr Mozart, þá er eitt sem er alveg ljóst að hann var ótrúlega sveigjanlegur þegar kom að því hvaða miðill var notaður fyrir tónlistina. Það var miklu afslappaðra.“

Klassísk tónlist er mikið samanburðarlistform, segir Víkingur, sem geti verið í senn leiðinlegt og skemmtilegt.

„Maður sér þegar fólk hlustar á forsendum einhvers annars. Þú sérð þegar gagnrýnandi fjallar um þig að hann er nýbúinn að hlusta á einhvern annan flytjanda, sem er með einhvern sannleik sem þessi gagnrýnandi tók með sér inn í nýju upptökuna. Þú sérð það strax. Það er vandræðalegt fyrir gagnrýnandann, finnst mér, en það er ótrúlega áhugavert hvað þetta er viðloðandi klassíska tónlist.“

Þráin eftir því sem við þekkjum er afar sterk og það getur verið óvinveitt frjórri listsköpun, að hans viti.

„Það er svo ríkt í manneskjunni. Þannig að ef þér þykir vænt um einhverja eina túlkun, sem þú hefur hrifist mjög dúpt af, svo ertu búinn að skrifa um tónlist í þrjátíu ár og svo kemur einhver og gerir eitthvað allt öðru vísi. Ég skil það, það er ótrúlega erfitt að sleppa því sem hefur verið sannleikur þinn í þetta langan tíma.“

Ef þessar kreddur eru yfirfærðar á önnur listform, eins og leikhúsið, blasir við hversu takmarkandi þær eru.

„Ef það væru allir á því að það mætti ekki hafa aðra búninga en þá sem Shakespeare hafði þegar Lér konungur eða Rómeó og Júlía voru frumflutt, ef þú mættir ekki gera nýjar senur eða nýja leikgerð, það er fáránleg hugmynd. Í klassíkinni erum við að gera eitthvað svo miklu minna drastískt heldur en nútímauppsetningar á Shakespeare. En bara það að spila á flygil getur reitt fólk til reiði.“

Víkingur undirstrikar þó að það sé mikill minnihluti sem er á þessari skoðun. „Þetta er bara eitt prósent og 99% af þessum heimi er stórskemmtilegt fólk, sem fagnar og hlustar.“

Víðsjá á Rás 1 var helguð Víkingi Heiðari Ólafssyni og nýrri plötu hans hjá Deutsche Grammophon. Þáttinn finnurðu í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Víkingur Heiðar slær í gegn á Proms

Tónlist

Tilnefnd til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs

Innlent

Víkingur kveður gamla flygilinn

Klassísk tónlist

Víkingur Heiðar leikur Bach