Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stökkbreytt afbrigði draga úr vonum um hjarðónæmi

epa08326563 WHO European director Hans Kluge gives status on the Danish handling of coronavirus during a press breefing in Eigtved's Pakhus, Copenhagen, Denmark, 27 March 2020. Countries around the world are taking increased measures to stem the widespread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the Covid-19 disease.  EPA-EFE/IDA GULDBAEK ARENTSEN DENMARK OUT
 Mynd: RITZAU SCANPIX - EPA-EFE
Umdæmisstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) í Evrópu er efins um að viðnám bóluefna dugi til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. Ný stökkbreyttt afbrigði veirunnar draga úr vonum um að hjarðónæmi náist.

Hans Kluge, umdæmisstjóri WHO í Evrópu, segir heilbrigðisyfirvöld þurfa smám saman að aðlaga bólusetningaráætlanir sínar að þeim veruleika að verian sem veldur COVID-19 stökkbreytist og geti víða orðið landlægur sjúkdómur.

Þá þurfi að bregðast við með svipuðum hætti og gert hefur verið varðandi inflúensu undanfarna áratugi, með bólusetningu. Einkum þurfi að huga að því að því að gefa örvunarskammta í viðureigninni við veiruna. 

Þetta er viðhorfsbreyting en í maí var Kluge vongóður um að faraldurinn yrði að baki eftir að tækist að bólusetja að minnsta kosti 70% mannfjöldans.

Í samtali við AFP-fréttaveituna segir Kluge nú að markmið bólusetninga nú hljóti fyrst og fremst að vera að koma í veg fyrir alvarleg veikindi og dauðsföll af völdum COVID-19. Eins þurfi að koma í veg fyrir álag á heilbrigðiskerfi einstakra landa af völdum sjúkdómsins. 

Delta-afbrigðið er talið vera um 60% meira smitandi en Alfa-afbrigðið og tvisvar sinnum meira smitandi en upprunagerð veirunnar. Erfiðara verður að ná hjarðónæmi eftir því sem veira berst hraðar á milli fólks.

Með hjarðónæmi er átt við að nægilega margir hafi náð að mynda ónæmi til að veiran hætti að dreifa sér. Það getur gerst með bólusetningu eða gegnum smit með náttúrulegum hætti.