Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Samkeppni Bandaríkjanna og Kína leiði ekki til átaka

10.09.2021 - 03:58
Mynd með færslu
 Mynd: EPA-EFE - AP-EPA
Þeir Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, og Xi Jinping, forseti Kína, áttu opinskátt og djúpt samtal í gærkvöld, að sögn forsetaembættisins í Kína. Í tilkynningu frá Hvíta húsinu segir að Biden hafi hvatt til þess að ríkin kæmu í veg fyrir að samkeppnin á milli þeirra yrði að átökum.

Símtalið var það fyrsta á milli forsetanna í sjö mánuði. AFP fréttastofan hefur eftir heimildamanni innan Bandaríkjastjórnar að markmið þess hafi verið að passa upp á að hægt verði að stýra sambandi ríkjanna af ábyrgð. Þar á meðal var reynt að koma í veg fyrir að aðgerðir Bandaríkjastjórnar verði mistúlkaðar af Kína, að sögn heimildamannsins sem vildi ekki koma fram undir nafni. 

Á kínversku ríkisfréttastofunni CCTV sagði að forsetarnir hafi tæpt á málefnum sem valda þeim báðum áhyggjum. Auk þess hafi þeir rætt að stefna Bandaríkjanna gagnvart Kína hafi valdið miklum erfiðleikum.

Síðast ræddu þeir Biden og Xi við í febrúar, skömmu eftir að Biden tók við embætti af Trump. Í tíð Trumps urðu miklir brestir í samskiptum Bandaríkjanna og Kína, sem meðal annars endaði með viðskiptastríði á milli ríkjanna. Biden hefur talað fyrir alþjóðahyggju og gegn einangrunarstefnu forvera síns. Þrátt fyrir það hefur hann haldið harðri línu Trumps gagnvart Kína, þar á meðal innflutningstollum.

Alls töluðu leiðtogar stórveldanna tveggja saman í hálfa aðra klukkustund. Símtalið gekk ekki út á að ná tímamótasamkomulagi í nokkrum málaflokki, að sögn heimildamanns AFP í Washington. Aðalmarkmið Bandaríkjastjórnar var að koma stöðugleika á samskipti ríkjanna.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV