Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Riða í Skagafirði: „Þetta kemur á versta tíma“

10.09.2021 - 22:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Úlla Árdal
Héraðsdýralæknir á Norðurlandi-vestra segir að riða sem greindist í kvöld á bænum Syðra-Skörðugili í Skagafirði komi á versta tíma. Öllu fé á bænum verði lógað og bændur á svæðinu verði að vera vakandi.

„Þetta kemur á versta tíma þegar eru göngur og réttir, mikill samgangur sauðfjár og manna. Eins og núna er staðan þá hefur yfirdýralæknir óskað eftir við ráðuneytið að það verði farið í niðurskurð á sauðfé. Öllu fé er lógað ef það greinist klassísk riða í einhverjum grip á bænum,“ segir Jón Kolbeinn Jónsson héraðsdýralæknir. 

Riðuveiki hefur greinst á bænum einu sinni áður, fyrir þrjátíu árum, en bærinn tilheyrir Húna- og Skagahólfi og þar greindist riða á einum bæ í fyrra. Jón segir riðutilfellið vera mikið áfall fyrir bændurna á bænum en mikilvægt sé að bregðast hratt við. 

„Við bara reynum að bregðast þannig við að við högum réttum þannig að það sé dregið í dilka þeirra fé eins og verið hefur og keyrum því svo beint heim, lágmörkum viðveru í réttum, af sauðfénu. Svo er mikilvægt að bændur á svæðinu séu vakandi með sitt fé og láti vita ef eitthvað misferst eða finnst dautt, svo við hjá Matvælastofnun getum tekið sýni úr þeim gripum. Því að þetta er riðusvæði sem við búum við hérna í kringum Varmahlíð og eiginlega bara allt Norðurland vestra,“ segir Jón Kolbeinn. Sérstaklega sé mikilvægt að hægt sé að taka sýni úr skepnum sem finnast sjálfdauðar og því þurfi bændur að láta vita af þeim. 
 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir