Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Óskað er eftir afstöðu frambjóðenda til fjárhættuspila

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samtök áhugafólks um spilafíkn óska eftir því að öll framboð til Alþingis í komandi kosningum láti í ljós opinberlega afstöðu sína til reksturs fjárhættuspila á Íslandi.

Háskóli Íslands, Slysavarnafélagið Landsbjörg og Rauði krossinn halda úti rekstri spilakassa í landinu. SÁA sagði sig frá sameiginlegum rekstri spilakassa undir merkjum Íslandsspila með Landsbjörgu og Rauða krossinum á síðasta ári.

Í yfirlýsingu samtakanna segir að Gallup-könnun sem gerð var fyrir þau í maí 2020 leiddi í ljós afgerandi vilja meirihluti kjósenda, eða 85,8%, til að spilakössum verði lokað til frambúðar.

Á liðnu þingi lögðu þingmenn Flokks fólksins, Inga Sæland og Guðmundur Ingi Kristinsson fram frumvarp um bann við rekstri spilakassa. Það náði ekki fram að ganga en embætti Landlæknis studdi bann í umsögn með frumvarpinu. 

Velferðarnefnd Alþingis fjallaði um spilafíkn og spilakassa á tveimur fundum í mars síðastliðnum, að beiðni Söru Þórðardóttur Oskarsson varaþingmanns Pírata.