
Gangnamenn fá nýjan skúr með diskóljósum og krapvél
Gott veður og góður mannskapur
Það verður réttað í Undirfellsrétt í Vatnsdal í dag. Fjallskilastjórinn Egill Herbertsson, eða Valdi á Haukagili eins og hann er jafnan kallaður, var að taka síðasta sprettinn nú í morgun þegar fréttastofa náði í hann. „Við erum hérna á leiðinni með safnið í Undirfellsrétt, Grímstungusafnið. Það hefur gengið bara mjög vel, gott veður og góður mannskapur,” segir Egill.
Vinnuskúr sem áður hýsti verkamenn í Vaðlaheiði
En það er ekki bara veðrið sem hefur leikið við gangnamenn heldur hefur aðstaðan aldrei verið betri. Bændur hafa nefnilega komið sér upp nýjum skúr. Engum smá skúr því vinnuskúrar sem hýstu starfsmenn Vaðlaheiðarganga eru komnir á Grímstunguheiði. „Núna er þannig að við getum verið með eins og tveggja manna herbergi, við erum með sex snyrtingar með sturtum og flott eldhús og þetta er allt yndislegt.”
Aðstaðan er til fyrirmyndar
Þarf ekki lengur að sofa með gömlum drukknum kalli
Og þetta er væntanlega allt annað líf frá því að þið voruð að deila kojum og slíkt?
„Já maður þurfti kannski að sofa hjá einhverjum gömlum út úr drukknum kalli en núna er öldin önnur. Og fólk er líka hætt að drekka eins mikið eins og það gerði hérna áður fyrr.”
Ég sá á Facebook að þið eruð með einhver diskóljós þarna og krapvél, þetta er farið að líta út eins og einhver skemmtistaður?
„Já og undanreiðarmenn þeir klæða sig upp og fara í jakkaföt og þetta er mjög svona virðulegt hjá okkur.”