Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fá ekki næði á geðdeildum og súrefni af skornum skammti

10.09.2021 - 19:00
Mynd: Kristinn Magnússon / RÚV
Læstir, skítugir gluggar, reykingalykt og skortur á næði er það sem sjúklingarnir á fíknigeðdeild Landspítalans þurfa að búa við. Fólkið hefur engan aðgang að útisvæði og kemst lítið út undir bert loft. Allt húsnæðið er löngu úrelt og sumt er beinlínis hættulegt. Deildarstjórinn segir ömurlegt að fólk geti ekki fengið sér frískt loft.

Dimmir stigagangar og hættulegir veggir

Geðdeildarbygging Landspítalans var byggð fyrir nærri fimmtíu árum og hefur lítið sem ekkert breyst síðan, hvorki að innan né utan. Aðkoman við Hringbraut er ekki beinlínis meðferðarvæn. Þetta eru dimmir og þröngir stigagangar með dökkmáluðum og þunglamalegum steypuveggjum. Og sumir þeirra eru ekki bara óhefðbundnir, heldur líka beinlínis hættulegir, ef maður rekur sig í þá eða dettur á þá.

„Þetta er og alls ekki sjarmerandi að neinu leyti. Þetta er bara kalt og slæmt,” segir Maríanna Bernharðsdóttir, deildarstjóri fíknigeðdeildarinnar við Hringbraut. Þangað leggst fólk með alvarlegan fíkni- og geðvanda, oft eftir langt og erfitt neyslutímabil. Markmiðið er að sjúklingarnir nái þar lágmarksjafnvægi. Móttakan er, eins og flest annað á geðdeildunum, hálfrar aldar gömul og hönnunin eftir því.  

„Þegar fólk er að leggjast inn hjá okkur þá er mjög mikilvægt að aðkoman sé góð, að fólk upplifi sig velkomið. Og ég held að það sé strax mikill ókostur hvernig sú aðstaða er,” segir Maríanna. 

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Magnússon - RÚV
Maríanna Bernharðsdóttir, deildarstjóri fíknigeðdeildar Landspítalans við Hringbraut.

Ekkert næði og heimsóknir í kústaskáp

Sjúklingarnir fá lítið sem ekkert næði hver frá öðrum inni á deildinni.  

„Það er skortur á rými fyrir fólk að fá smá næði. Aðstæður fyrir aðstandendur eru ekki góðar.”

Þau sem fá heimsóknir þurfa að taka á móti aðstandendum í þessu litla herbergi, sem er nánast það eina sem býður upp á eitthvað næði.  12 herbergi eru á deildinni, nær öll tveggja manna. 

„Þannig að fólk þarf þá að deila herbergi með algjörlega ókunnugum einstaklingi. Sömuleiðis salerni og sturtum.”

Skítugir, læstir gluggar og flúorljós

Tvíbýlin eru ekki beint heimilisleg. Og það er lítið sem ekkert hægt að lofta út, því búið er að koma fyrir óbrjótanlegu plasti með loftgötum fyrir eina opnanlega glugganum. Það er ekki hægt að þrífa gluggasylluna fyrir innan og í vissri vindátt heyrist óþægilegt hljóð þegar vindurinn sem þó nær að smjúga inn um rifuna blæs í gegnum götin. Og eina lýsingin kemur úr flúorljósum. Maríanna segir innilokunarkennd ekki óalgenga tilfinningu hjá sjúklingunum. 

„Það er agalegt að geta ekki boðið fólki að fara út þegar því hentar, að fá sér aðeins ferskt loft og fara út fyrir deildina.”

Reykingalykt um alla deild

Glugginn í reykherberginu býður sömuleiðis upp á mjög takmarkað súrefni og opnast einungis um örfáa sentímetra.   

„Það eru ekki allir sem reykja. Reykingalyktin, því það er léleg loftræsting, reykingalyktin berst inn á deildina þannig að öðrum sjúklingum finnst það óþægilegt. Og við höfum alveg lent í því.”

Enginn aðgangur að útisvæði

En sjúklingarnir hafa ekkert aðgengi að útisvæði frá deildinni, og það á við um fleiri geðdeildir við Hringbraut, eins og bráðadeildina, þar sem fólk er oft nauðungarvistað. 

„Okkur finnst öllum eðlileg mannréttindi að geta farið út undir bert loft. Það er ekki í boði hjá okkur. Þannig að það er bara mjög sorgleg staða.”

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Magnússon - RÚV
Sjúklingarnir þurfa að taka á móti heimsóknum frá aðstandendum í þessu herbergi.