Tekst Djokovic hið ótrúlega?

epa09456662 Novak Djokovic of Serbia in action against Matteo Berrettini of Italy during their quarterfinals round match on the tenth day of the US Open Tennis Championships the USTA National Tennis Center in Flushing Meadows, New York, USA, 08 September 2021. The US Open runs from 30 August through 12 September.  EPA-EFE/JASON SZENES
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Tekst Djokovic hið ótrúlega?

09.09.2021 - 14:22
Serbneski tenniskappinn Novak Djokovic er nú aðeins tveimur sigrum frá því að skrá sig rækilega í sögubækurnar. Djokovic er kominn í undanúrslit Opna bandaríska meistaramótsins sem er fjórða og síðasta risamót ársins. Djokovic vann Ítalanna Matteo Berettini í átta manna úrslitum í gærkvöld.

Vinni Djokovic sigur á Opna bandaríska meistaramótinu verður hann aðeins annar tennisleikarinn í sögunni til að vinna öll risamótin fjögur á sama almanaksárinu. Jafnframt yrði hann þá fyrsti karlinn til þess. Hingað til er hin þýska Steffi Graf sú eina sem hefur unnið öll risamótin fjögur á sama almanaksárinu.

Það gerði Graf árið 1988 þegar hún vann Opna ástralska meistaramótið, Opna franska meistaramótið, Wimbledon mótið og Opna bandaríska meistaramótið. Hún vann þar með alslemmuna. Reyndar vann hún líka gullið á Ólympíuleikunum í Seoul sama ár og er talað um að hún hafi unnið gullnu alslemmuna fyrir vikið.

Gæti farið fram úr Federer og Nadal

Djokovic tapaði hins vegar fyrir Þjóðverjanum Alexander Zverev í undanúrslitum Ólympíuleikanna í Tókýó í sumar og mistókst þar með að vinna gullið þar. Zverev gæti aftur orðið ljón í vegi Djokovic, því þeir mætast í undanúrslitum Opna bandaríska meistaramótsins á morgun.

Takist Djokovic að vinna Opna bandaríska meistaramótið yrði það líka jafnframt hans 21. risatitill á ferlinum. Þá færi hann fram úr Svisslendingnum Roger Federer og Spánverjanum Rafael Nadal. Allir þrír hafa nú unnið 20 risamót í einliðaleik á ferlinum.