Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stór hluti vinnumarkaðar raddlaus í þingkosningum

09.09.2021 - 11:54
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Sérfræðingur í innflytjendamálum segir innflytjendamál vera jaðarmál í íslenskum stjórnmálum, og lítið beri á þeim fyrir kosningar. Hún veltir því upp hvort endurskoða megi löggjöfina til auðvelda innflytjendum að fá kosningarétt, því þeir séu stór hluti af íslensku samfélagi.

Þótt innflytjendur séu einn fimmti af íslenskum vinnumarkaði, eru fæstir þeirra með kosningarétt. Hallfríður Þórarinsdóttir, sérfræðingur í innflytjendamálum og framkvæmdastjóri Mirru rannsóknarseturs, telur að þjóðin verði að laga sig að breyttu samfélagi.

Hallfríður segir að á örstuttum tíma hafi innflytjendum fjölgað um 85 prósent, á síðastliðnum 20 árum. Samfélagið hafi gjörbreyst með tilkomu þeirra en samt sé rödd þeirra mjög veik. Hún segir stjórnmálaflokkana veita innflyjendamálum litla athygli.

Flestir innflytjendur eru af evrópskum uppruna, margir frá Evrópusambandslöndum og njóta margra réttinda og sækjast því hugsanlega ekki eftir því að verða íslenskir ríkisborgarar. 

„Ein af ástæðunum fyrir því að innflytjendamál eru ekki í brennidepli pólitískrar umræðu á Íslandi gæti hugsanlega stafað af því að fæstir þeirra eru með kosningarétt í þingkosningum. Þar af leiðandi vigta þau atkvæði ekki neitt. Það eru engin atkvæði frá innflytjendum þó það séu 60 þúsund manns hérna og fimmti hver starfsmaður á vinnumarkaði þá eru þeir langflestir ennþá erlendir ríkisborgarar, “ segir Hallfríður.

Og Hallfríður segir áhugavert að setja þetta raddleysi innflytjenda í sögulegt samhengi. „Einu sinni var það þannig á Íslandi að konur fengu ekki að kjósa og urðu að berjast fyrir því að fá kosningarétt og kosningaréttur var líka háður aldri og eignastöðu og það mætti kannski spyrja hvort þetta sé óviljandi framhald af því og er pólitískur vilji fyrir því þvert á alla flokka að endurskoða þetta lagaákvæði þannig að innflytjendur sem hafa búið hérna í ákveðið mörg ár yrði gefin kosningaréttur.“
 

 

Hjördís Rut Sigurjónsdóttir