Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Skemmtiferðaskipin menga á við 5000 bíla á mínútu

Mynd með færslu
 Mynd:
Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands hélt erindi á Málþingi Landverndar í dag, þar sem hann fór ófögrum orðum um skemmtiferðaskipin sem ferðast hingað til lands. „Við vorum að mæla þetta árið 2019 og þessi skip eru að menga álíka og 5000 bílar á mínútu“ segir Árni, en þar vísar hann til mælinga á sóti í andrúmslofti sem samtökin gerðu í Reykjavík, í samstarfi við Clean Arctic Alliance.

Árni segir að þó þessi skip brenni ekki svartolíu, sé mengunin töluverð og þá mest í formi sótmengunar. Hann telur sótmengun í andrúmslofti ógn við heilsu almennings og mengunin sé mikið vandamál í Reykjavík.

„Eigum að skattleggja þetta út af borðinu“

Árni segir að þó flest skemmtiferðaskipa notist við ögn hreinni olíu en svartolíuna, sé mengunin mikil frá skorsteininum sem sé fullur af sóti.

„Það er í rauninni ótrúlegt að þetta haldi áfram. Við græðum mjög lítið á þessum ferðamönnum“ segir Árni.

„Við eigum bara að skattleggja þetta út af borðinu nánast. Ef fólk vill koma hingað þá á það bara að taka þátt í að borga fyrir rafmagn til skemmtiferðaskipa í Reykjavík. Og ekki seinna en í gær“ segir Árni, og vísar til rafvæðingu skipa sem samtökin kalla eftir.

Banna svartolíuskip innan 12 mílna landhelgi

Náttúruverndarsamtökin hafa ekki síður skoðanir á skipum sem brenna svartolíu, líkt og skipið El Grillo gerði, sem nú liggur á botni Seyðisfjarðar.

Árni bendir á að annað slíkt mengunarslys myndi hafa skelfilegar afleiðingar fyrir íslenska náttúru. „Það er nánast vonlaust að hreinsa þetta upp“ segir Árni.

„Við viljum banna skip sem brenna svartolíu innan 12 mílna landhelgi Íslands“ segir hann. „Það er að segja, ekkert skip fær að koma inn í landhelgi Íslands nema það sé engin svartolía um borð“.

Árni bendir á að þetta séu Norðmenn að gera við Svalbarða. „Þetta þýðir það að skemmtiferðaskip, flutningaskip eða önnur skip sem brenna svartolíu - þau geta bara farið eitthvað annað“.

Ólöf Rún Erlendsdóttir