Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lýsa yfir óvissustigi vegna Öskju

09.09.2021 - 16:42
Askja eftir berghlaup 21. júlí 2014.
 Mynd: RÚV - Landverðir við Öskju.
Ríkislögreglustjóri í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi Eystra hafa lýst yfir óvissustigi Almannavarna vegna landriss í Öskju. Að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur upplýsingafulltrúa Almannavarna verður nú aukið eftirlit með svæðinu.

Í tilkynningu ríkislögreglustjóra segir að líklegasta skýringin sé að á 2-3 km dýpi sé kvika að safnast fyrir.  Í næstu viku muni svo Veðurstofa Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans efla mælingar og vöktun í Öskju til þess að fylgjast enn betur með hegðun eldstöðvarinnar.

Í tilkynningunni segir enn fremur að síðustu vikur hafi mælst hraðar landbreytingar í Öskju, bæði á GPS-mælitæki staðsett þar og eins með nákvæmri úrvinnslu gervitunglamynda.

Óvissustigi er samkvæmt skilgreiningu almannavarna lýst yfir þegar: „atburðarás er hafin og ætla má að geti leitt til þess að öryggi fólks og/eða byggðar sé stefnt í hættu. Á þessu stigi hefst samráð milli almannavarna og þeirra stofnana sem málið varðar.“

Á þessu stigi eru því athuganir, rannsóknir, vöktun og mat aukið. Atburðurinn er skilgreindur og hættumat framkvæmt reglulega til að meta stöðuna hverju sinni.

 

Olofre's picture
Ólöf Rún Erlendsdóttir