Lögregla með óformlegt eftirlit við hús borgarstjóra

09.09.2021 - 10:38
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur verið beðin um að taka upp óformlegt eftirlit við hús borgarstjóra að nýju, samkvæmt heimildum fréttastofu. Það má rekja til þess að maður, sem grunaður er um að hafa skotið á skrifstofu Samfylkingarinnar og bíl borgarstjóra, hefur verið að áreita varaborgarfulltrúa Miðflokksins.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að lögregla hefði vaktað Ráðhús Reykjavíkur á meðan borgarstjórn fundaði á þriðjudagskvöld.

Fram kemur í frétt blaðsins að borgarfulltrúar hafi ekki fengið að fara einir úr húsi. Þar er jafnframt fullyrt að maðurinn sem um ræðir hafi áreitt Baldur Borgþórsson, varaborgarfulltrúa Miðflokksins. Baldur staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Hann segir að eftir skotárásina á bíl borgarstjóra og skrifstofur stjórnmálaflokka séu svona mál sett í ákveðið ferli hjá ríkislögreglustjóra. Hann vildi lítið tjá sig um áreitnina sjálfa en sagði að hún hafi verið á því stigi að honum leist ekki á blikuna.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst var borgarfulltrúum tilkynnt um málið áður en borgarstjórnarfundur hófst klukkan tvö og þeir látnir vita að öryggisgæsla hefði verið hert.

Um kvöldmatarleytið var síðan boðað til aukafundar í forsætisnefnd þar sem nefndarmönnum var greint frá eðli áreitninnar og hver stæði fyrir því.

Forseti borgarstjórnar bað þá borgarfulltrúa sem voru gangandi eða hjólandi að taka leigubíl heim. Alexandra Briem, forseti borgarstjórnar, vildi ekki tjá sig um málið í samtali við fréttastofu RÚV í morgun. 

Heimildir fréttastofu herma að eftir þessa uppákomu hafi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verið beðin um að taka upp að nýju óformlegt eftirlit með húsi borgarstjóra. Og að beiðni um það hafi borist í gær.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti héraðssaksóknara er skotárásin á skrifstofu Samfylkingarinnar og bíl borgarstjóra þar enn til meðferðar og engin ákæra hefur verið gefin út.