Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Lengri bið á BUGL og börnin eru veikari

Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir / RÚV
Mikil fjölgun hefur orðið á bráðakomum og innlögnum á Barna- og unglingageðdeild Landspítala í kórónuveirufaraldrinum og börn bíða nú tveimur mánuðum lengur eftir þjónustu þar en fyrir faraldur. Tilfellum sem tengjast átröskun hefur fjölgað um 70%.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem heilbrigðisráðherra lét vinna um óbein áhrif COVID-19 á geðheilsu barna og ungs fólks. Þar segir að sú nálgun, að hlífa börnum eins mikið og hægt var við samfélagstakmörkunum, hafi staðið vörð um geðheilbrigði þeirra.

Það virðist þó ekki hafa dugað til, því að á fyrstu mánuðum ársins fjölgaði bráðakomum á BUGL, um 34% frá fyrra ári og 49% aukning var á innlögum á legudeild. Tilvísunum vegna átröskunarvanda barna fjölgaði um 70% á milli áranna 2019 og ‘20 og í október og nóvember í fyrra komu 27% fleiri mál  inn á borð BUGL en í sömu mánuðum árið á undan.

Í skýrslunni segir að starfsfólk BUGL búist við enn meiri aukningu nú í haust. „Tilvísunum hefur fjölgað mikið hvað varðar átröskunarmálin. Áður fyrr var aldrei bið eftir þjónustu inn í það teymi, börn komu bara beint inn í þjónustuna,“ segir Guðlaug María Júlíusdóttir deildarstjóri faghópa á BUGL. „Í dag þurfa þau að bíða eftir þjónustu og við erum þá jafnvel að fá þau veikari til okkar þegar loksins kemur að inntöku.

Í skýrslunni segir að biðtími hafi lengst hjá öðrum sem veita geðheilbrigðisþjónustu - bæði opinbera þjónustu og einkarekna. Börnin eru þá veikari þegar þau fá aðstoð og meiri þörf er fyrir bráðaþjónustu.

Í upphafi faraldurs var almennur biðtími eftir þjónustu á BUGL yfir sjö mánuðir, en hann hefur lengst að sögn Guðlaugar sem segir hann núna vera um níu mánuði.

Stefnir í slæmt ástand? „Við höfum áhyggjur af ástandinu. Það má segja það. Við sjáum að vegna þess að börn eru að bíða lengur eftir þjónustu, þá er vandinn þeirra að versna og aukast áður en þau svo fá viðeigandi meðferð.“

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir