Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Lagt til að samkynhneigðir karlar megi gefa blóð

Mynd með færslu
 Mynd: ec-jpr - Flickr
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur lagt til breytingu á reglugerð, sem yrði til þess að óheimilt yrði að mismuna blóðgjöfum vegna kynhneigðar. Í dag er reglan sú varðandi blóðgjafir, að karlmaður sem hefur einhvern tímann haft kynmök við annan karlmann má ekki gefa blóð.

Blóðgjafi má ekki hafa stundað „áhættusamt kynlíf“

Tillagan snýr að því að reglunum verði breytt svo óheimilt verði að mismuna blóðgjöfum á grundvelli ómálefnanlegra sjónarmiða líkt og kyns, kynhneigðar, uppruna eða stöðu að öðru leyti.

Í stað þess að samkynhneigðum, eða tvíkynhneigðum, karlmönnum verði neitað um að gefa blóð, verður kveðið á um að blóðgjafar megi ekki hafa stundað áhættusamt kynlíf í fjóra mánuði fyrir blóðgjöf. Með áhættusömu kynlífi er þá átt við kynlíf sem eykur verulega líkur á alvarlegum smitsjúkdómum sem berast með blóði.

Tillagan verður í samráðsgátt næstu tvær vikur, þar sem hægt verður að senda inn umsagnir um tillöguna.