Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Húsnæði geðdeildar „barn síns tíma“

09.09.2021 - 21:28
Mynd: RÚV / RÚV
Alma D. Möller, landlæknir, segir ljóst að húsnæði geðdeildar sé barn síns tíma. Hún segir að það þurfi ekki einungis fjármagn til að gera upp deildina heldur einnig hugkvæmni.

Greint var frá því í kvöldfréttum að húsnæði sérhæfðu endurhæfingardeildarinnar á Kleppi væri svo úrelt að það hafi haft slæm áhrif á bata sjúklinganna. Loft og innréttingar eru í æpandi lit sem sjúklingar hafa kvartað yfir og deildarstjóri segir húsakostinn svo slæman að hann geti haft slæm áhrif á bata og líðan.

„Það er auðvitað ljóst að húsnæði geðdeildar er barn síns tíma og brýnt að skoða hvernig það verður leyst til framtíðar en þangað til finnst mér að það væri hægt að gera upp þessa deild ekki með miklum tilkostnaði og breyta litum og þess háttar,“ sagði Alma í Kastljósi í kvöld.

Þannig að fjármagnið er kannski ekki allt sem þarf?
„Stundum þarf hugkvæmni líka,“ segir Alma.

Einnig var rætt um nýja skýrslu um andleg áhrif af faraldrinum í Kastljósi kvöldsins. Spurð hvað hafi komið mest á óvart í skýrslunni segir Alma að svo virðist sem andleg áhrif af faraldrinum séu ekki mjög alvarleg fyrir allflesta. Færri hafi til dæmis verið í fjárhagsvandræðum eða vanskilum, enda færri tækifæri til að eyða peningum.

„Auðvitað eigum við eftir að skoða langtímaáhrif af atvinnuleysi og slíkt, en svona heilt yfir bjuggumst við allt eins við meiri áhrifum,“ segir hún.

Það vekur líka athygli að heilbrigðisstarfsfólk reyndist ekki í meiri áhættu á einkennum kvíða, þunglyndis eða áfallastreitu, samanborið við aðrar stéttir. Þess ber þó að geta að þarna er líðan í fyrstu bylgju faraldursins skoðuð.

„Ég er ekki endilega viss um að við fáum jafngóðar niðurstöður úr þriðju og fjórðu bylgju því að þær hafa verið meira krefjandi fyrir heilbrigðisstarfsfólk, fyrir utan að fólk er orðið langþreytt auðvitað líka,“ segir Alma.

Þá sagði Alma að það væri tímabært að taka skref í átt að minni samkomutakmörkunum en að ekki ætti að aflétta öllu. „Hvað við verðum lengi að koma okkur út úr þessu er ómögulegt að segja en ég hef á tilfinningunni að andleg líðan lagist bara í takt við það að faraldurinn gangi niður.“