Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekki enn um gosóróa að ræða í Öskju

09.09.2021 - 19:52
Mynd: RÚV / RÚV
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn almannavarna segir að ekki sé um að ræða eiginlegan gosóróa í Öskju, þó land hafi risið og aukning hafi orðið í smáskjálftavirkni. Fyrst og fremst séu þau að lýsa yfir óvissustigi til þess að vera undirbúin fyrir mögulegar sviðsmyndir ef land haldi áfram að rísa.

Gæti komið til hraun- eða sprengigoss

Í Öskju hafa orðið bæði hraungos og sprengigos, en Víðir segir að báðar sviðsmyndir komi nú til greina.

„Bæði getur orðið þarna hraungos, sem eru algengustu gosin á þessu svæði. Það yrði þá eins og Holuhraunsgosið, eða sú tegund af gosi. Askja hefur líka verið með sprengigos nokkrum sinnum í gegnum tíðina, sem væri þá mun alvarlegra gos, með hugsanlega miklu öskufalli“ segir Víðir.

Hverju breytir það að sé búið að lýsa yfir óvissustigi?

„Þetta er fyrsta skrefið í að færa okkur að þeim aðgerðum sem þarf að grípa til. Á óvissustigi erum við fyrst og fremst að auka rannsóknir, við erum að auka mælingar og fylgjast betur með. Við erum að fara yfir okkar viðbragðsáætlanir og sjá hvort það sé í lagi með fjarskiptasamband á svæðinu og ýmislegt. Til þess að tryggja það að ef það þarf að grípa til aðgerða þá séum við fullkomlega tilbúin“ segir Víðir.