Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ágúst Heiðar ekki lengur á lista Flokks fólksins

09.09.2021 - 19:36
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Flokkur fólksins hefur breytt framboðslista sínum fyrir Norðvesturkjördæmi eftir að í ljós kom að Ágúst Heiðar Ólafsson, sem áður skipaði annað sæti á listanum, var einnig á lista Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Ágúst sagði í samtali við Austurfrétt í dag að það hefði gerst fyrir mistök og að hann væri í Flokki fólksins, en hann hefur nú verið tekinn af framboðslista flokksins.

„Maðurinn var á öðrum framboðslista. Það segir sig sjálft,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. „Ég var bara hissa. Þetta er eitthvað sem maður hefur aldrei séð áður. Ég hef aldrei séð að sami einstaklingurinn skrifi undir tvö staðfestingarblöð,“ segir hún.

Guðmundur Franklín, formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins, sagði fyrr í dag að málið yrði leyst þannig af þeirra hálfu að sonur hans, Árni Franklín, tæki sæti Ágústs Heiðars, það fjórtánda. Þá sagði hann að hann furðaði sig á vinnubrögðum Flokks fólksins.

„Ég var ennþá meira hissa á því hvernig Guðmundur Franklín brást við. Hann kom þarna inn á að þetta væri skemmdarverk á hans flokki. Ég botna ekkert í manninum. Hvorki upp né niður,“ segir Inga.

Guðmundur segir að Ágúst hafi ætlað að bjóða sig fram fyrir flokk sinn þar til honum var boðið annað sæti á lista Flokks fólksins. Ágúst hafi um leið verið tekinn af framboðslista Frjálslynda lýðræðisflokksins og nýjustu vendingar breyti engu þar um.

„Ég hló mig máttlausan,“ segir Guðmundur. „Við tókum hann strax af listanum hér. Við tökum ekki þátt í svona vitleysisgangi,“ segir hann.

Ekki náðist í Eyjólf Ármannsson, oddvita Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi, við vinnslu fréttarinnar. Þá segir Þórunn Björg Bjarnadóttir, landbúnaðarverkakona sem nú skipar annað sæti listans, að hún hafi verið að sinna landbúnaðarstörfum í dag þegar ákvörðunin var tekin. 

Uppfærður framboðslisti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi:

1. Eyjólfur Ármannsson, lögfræðingur LL.M.

2. Þórunn Björg Bjarnadóttir, landbúnaðarverkakona/fv. bóndi

3. Hermann Jónsson Bragason, vélstjóri

4. Eyjólfur Guðmundsson, vinnur á sambýli f. fatlaða

5. Sigurlaug Sigurðardóttir, náttúrufræðingur

6. Sigurjón Þórðarson, líffræðingur

7. Sigríður Inga Sigurjónsdóttir, dýralæknir

8. Bjarki Þór Pétursson, verkamaður/öryrki

9. Jenný Ósk Vignisdóttir, landbúnaðarverkakona

10. Einir G. Kristjánsson, verkefnastjóri/öryrki

11. Sigurlaug Arnórsdóttir, öryrki

12. Magnús Kristjánsson, eldri borgari

13. Erna Gunnarsdóttir, öryrki

14. Halldór Svanbergsson, bílstjóri

15. Jóna Marvinsdóttir, matráður/eldri borgari

16. Kristjana S. Vagnsdóttir, eldri borgari