Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Væg einkenni ungmenna valda ekki langtíma lungnavanda

08.09.2021 - 02:47
epa09444616 Nightlife guests gather in front of Rumors on Noerregade in Copenhagen, Denmark, 03 September 2021. From Wednesday, nightclubs and bars could be open more or less as usual with a dance floor and without distance. This is the first time since the coronavirus pandemic hit Denmark.  EPA-EFE/Olafur Steinar Gestsson  DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - RITZAU SCANPIX
Kórónuveiran sem veldur COVID-19 virðist ekki valda lungnavandamálum til lengri tíma í börnum og ungu fólki sem fá væg einkenni. Þetta sýna niðurstöður rannsókna í Svíþjóð og Þýskalandi.

Sænska rannsóknin nær til um 850 barna og ungmenna fæddum á tíunda áratug síðustu aldar og síðar. Þau tilheyra svonefndum BAMSE-rannsóknarhóp, þar sem fylgst er með þeim frá barnsaldri. Um þriðjungur þeirra greindist með mótefni við kórónuveirunni. Árið 2019, áður en faraldurinn hófst, voru lungu þátttakenda í BAMSE rannsökuð, og því hægt að sjá muninn frá því fyrir og eftir sýkingu. Fréttastofa sænska ríkissjónvarpsins hefur eftir Idu Morgensen, læknis við Karolinska sjúkrahúsið, að niðurstöður sýni að lungnastarfsemi fólksins sé svipuð og hún var árið 2019.

Þýska rannsóknin, sem nær til færri barna á aldrinum fimm til átján ára, bendir til sömu niðurstöðu og sú sænska. Þó er þess getið að alvarleg sýking, hvað svo sem veldur henni, geti leitt til lungnavandamála til lengri tíma. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV