„Þetta er ekkert mús heldur leðurblaka!“

Mynd: Ólöf Ása Skúla­dóttir / Aðsent

„Þetta er ekkert mús heldur leðurblaka!“

08.09.2021 - 12:33

Höfundar

Íbúa í Hvalfirði brá sannarlega í brún þegar hún var að henda í ruslið enn einni músinni sem kötturinn hafði fært henni, og komst að því að músin var með vígalega vængi. „Það var mjög gaman að finna þetta,“ segir hún um leðurblökuna.

Ólöf Ása Skúladóttir býr í Hvalfirði. Hún rak augun í enn eina músina á planinu fyrir utan heimili sitt á mánudag. Það kom henni ekki á óvart, kötturinn hefur fært henni ýmsar óumbeðnar gjafir í formi nagdýra, en þessi mús var töluvert frábrugðin öðrum þeim sem kisa hefur hingað til veitt. Þetta reyndist nefnilega ekki vera nein mús heldur leðurblaka. Þær eru reyndar tíðari gestir hingað til lands en margan grunar eins og þessi frétt greinir frá. „Það var mjög gaman að finna þetta,“ segir Ólöf Ása í samtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2 í gær.

Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Ása Skúla­dóttir - Aðsent
Ólöfu brá í brún þegar hún sá að músin væri með vængi.

Hún var að ræða við nágranna sinn þegar hún rak augu í það sem hún taldi vera mús og ætlaði að henda henni, en þar sem hún stóð við ruslið fór hún að skoða það sem hún hélt á og brá aldeilis í brún. „Ég var bara: Þetta er ekkert mús! Þá var þetta leðurblaka.“

Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Ása Skúla­dóttir - Aðsent
Þessi köttur er grunaður um ódæðið.

Hún telur ólíklegt að kötturinn sé saklaus í málinu. „Hún er mjög gjörn á að koma með svona gjafir,“ segir Ólöf. Það er enda mikið skóglendi í kringum heimilið en svo er oft verið að uppskipa í Grundartanga og Ólöf telur líklegt að leðurblakan hafi borist þangað með skipi. „En svo voru háloftavindarnir nokkuð góðir fyrir þremur dögum síðan, með mikilli rigningu sem þær gætu komið með líka.“

Ólöf setti sig í samband við sérfræðinga hjá Náttúrufræðistofnun Íslands sem eru með leðurblökuna í skoðun. Hún bíður spennt eftir niðurstöðum úr þeirri rannsókn.

Rætt var við Ólöfu Ásu Skúladóttur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

 

Tengdar fréttir

Mannlíf

Lakkaði mávurinn flögrar um og elskar að fara í bað

Innlent

Leðurblökur koma með gámum og hlýrra lofti