Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sæðisfrumur mögulega nær alveg horfnar árið 2045

08.09.2021 - 18:15
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Sæðisfrumur hjá karlmönnum gætu verið nær alveg horfnar árið 2045 haldi sama þróun áfram. Þetta kemur fram á vef Umhverfisstofnunar. Ástæðan er notkun á efnum sem eru skaðleg hormónastarfsemi líkamans. Rannsóknir í Evrópu-, Norður-Ameríku og Ástralíu frá 1973 til 2011 sýna að meðalfjöldi sæðisfruma hefur lækkað um 50 til 60 prósent á tímabilinu.  

Efnin geta verið til dæmis í þvottaefni, snyrtiefnum, raftækjum, textíl og málningu. Þau geta einnig orsakað lága fæðingarþyngd og legslímuflakk og fjölblöðrueggjastokkaheilkenni hjá konum. „Það er ansi margt sem við getum gert nú þegar, til dæmis bara að minnka neyslu eða velja Svansvottað eða Evrópublómin. Vera svona aðeins meðvitaður um efnin sem eru í kringum okkur,“ segir Bergdís Björk Bæringsdóttir, sérfræðingur í þrávirkum efnum hjá Umhverfisstofnun. Rætt var við hana í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í dag. 

Notkun á mörgum þessara efna er nú þegar ýmist bönnuð eða háð takmörkunum í lögum og reglugerðum hér á landi. 

Mikið var rætt um skaðsemi pfos-efna á árum áður en það var notað í teflon efni á steikingarpönnum til að hrinda í burt fitu og vatni. Bergdís segir að rannsóknir í Bandaríkjunum hafi sýnt að þessi efni hafi haft áhrif á hormónastarfsemi fólks sem bjó nálægt þeim verksmiðjum þar sem pönnurnar voru framleiddar.

Í sumum raftækjum eru svokölluð eld-tefjandi efni og þau geta einnig haft áhrif á hormónastarfsemi, að sögn Bergdísar. Það eru efni sem seinka því að það kvikni í eldfimum raftækjum ef þau hitna mikið. Nánar má lesa um þessi mál á vef Umhverfisstofnunar

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir