Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Réttað yfir 20 manns vegna hryðjuverka í París

08.09.2021 - 08:28
Mikil öryggisgæsla er við dómshúsið í París.
 Mynd: EPA
Ein mestu réttarhöld í franskri nútímasögu hefjast í dag, vegna hryðjuverkanna í París árið 2015. Tuttugu eru ákærðir í málinu og viðbúið að réttarhöld standi í níu mánuði.

Þrjúhundruð og þrjátíu lögmenn og þrjúhundruð eftirlifendur árásarinnar koma að málinu.

Alls létust 130 í samstilltum árásum þriggja hópa jíhadista á bari, veitingastaði og Bataclan-leikhúsið að kvöldi föstudagsins 13. nóvember. Þennan sama dag fór fram vináttulandsleikur Frakka og Þjóðverja á þjóðarleikvangi Frakka.

Árásarmennirnir voru átta, en aðeins einn þeirra komst lífs af og er meðal þeirra ákærðu. Hinir sakborningarnir eru ákærðir fyrir undirbúning. Auk árásarmannsins eiga ellefu þeirra yfir höfði sér lífstíðardóm

Árásirnar voru skipulagðar í Sýrlandi og lýsti Íslamska ríkið þeim á hendur sér.

Árásarmaðurinn sem enn lifir heitir Salah Abdeslam og er 31 árs, fæddur í Belgíu en með franskt og marokkóskt ríkisfang. Hann flúði af vettvangi eftir að hafa tekið af sér sprengjubelti, sem síðar kom í ljós að virkaði ekki. Hann fannst í felum í Brussel, fjórum mánuðum síðar.

Abdeslam hefur þvertekið fyrir að hjálpa til við rannsókn málsins og það litla sem hann hefur sagt er að hann telji dómstóla honum óvilhalla og leggi aðeins traust sitt á guð.