Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Rennsli við Eldvatn margfaldast

08.09.2021 - 11:32
Mynd: Þórir Ingvarsson / RUV
Rennsli við brúna yfir Eldvatn er nú um 600 rúmmetrar á sekúndu og hefur verið frá því um miðjan dag í gær. Það var um 200 rúmmetrar, vegna hlaups úr vestari katlinum, þegar vefmyndavél RÚV var sett upp aðfaranótt mánudags en í venjulegu árferði er rennsli við Eldvatn um 80 rúmmetrar á sekúndu. Aukið rennsli sést vel í meðfylgjandi myndskeiði, en það er margfalt meira en að jafnaði yfir sumarið.

Það hefur dregið úr rennsli Skaftár við Sveinstind en það mælist nú um ellefu hundruð rúmmetrar á sekúndu, en fór hæst yfir fimmtán hundruð í gær. Rennsli neðar í ánni er töluvert minna, en það er um 600 rúmmetrar á sekúndu við þjóðveg 1, við Eldvatn, og hefur haldist svipað síðan í gærkvöldi.

Sérfræðingar Veðurstofunnar flugu yfir flóðasvæðið í gær til að kanna áhrif hlaupsins. Á vef Veðurstofunnar segir að útbreiðsla nærri Skaftárjökli sé minni en í hlaupinu 2018 og hámarksrennsli í ánni er einnig nokkru minna en þá. Áhrif hlaupsins nærri byggð eigi enn eftir að koma í ljós, því mikið hlaupvatn eigi enn eftir að skila sér niður farveg Skaftár. Talið er að aðeins þriðjungur þess hafi farið framhjá mælinum við Sveinstind. Sérfræðingar hittast á samráðsfundi klukkan tvö í dag til að fara yfir nýjustu gögn og meta hvert framhald hlaupsins verður.