Ósætti í heimahúsi og bílþjófnaður á Akureyri

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Bíl var stolið í miðbæ Akureyrar á tíunda tímanum í morgun. Eigandinn hafði skilið bílinn eftir í gangi á meðan hann bar vörur inn í hús. Þegar hann kom út var bíllinn horfinn.

Lögregla sá bílinn skömmu síðar á ferðinni í umferðinni og gaf merki um að stöðva, sem bílþjófurinn gerði eftir stutta eftirför. Þá reyndi hann að hlaupa undan lögreglu en var handtekinn eftir stuttan sprett og fluttur á lögreglustöð.

Þetta kemur fram á Facebooksíðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Þar segir einnig að lögregla hafi farið í heimahús á Akureyri í morgun þar sem gestkomandi maður var sagður hafa ráðist á húsráðanda. Gesturinn var í annarlegu ástandi en ekki reyndist rétt að hann hafi ráðist á manninn. Hann hafði hins vegar þýfi í fórum sínum og var því handtekinn og fluttur á lögreglustöð, þar sem hann var vistaður í fangaklefa.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV